Innlent

Hannes kærir leka tveggja saksóknara

Lögmaður Hannesar Smárasonar, Gísli Guðni Hall hrl., hefur kært ríkissaksóknara og saksóknara efnahagsbrota hjá RLS fyrir brot á þagnarskyldu hvað varðar upplýsingar um rekstur og viðskipti FL Group.
Lögmaður Hannesar Smárasonar, Gísli Guðni Hall hrl., hefur kært ríkissaksóknara og saksóknara efnahagsbrota hjá RLS fyrir brot á þagnarskyldu hvað varðar upplýsingar um rekstur og viðskipti FL Group.
Hannes Smárason hefur kært Valtý Sigurðsson ríkissaksóknara og Helga Magnús Gunnarsson, saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, fyrir brot gegn þagnarskyldu í opinberu starfi. Lögmaður Hannesar lagði kæruna fram í nóvember, eftir að gögn tengd rannsókn efnahagsbrotadeildar á viðskiptum FL Group voru afhent fulltrúa eins af stærri hluthöfum í fyrirtækinu.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er aðdragandi þessa máls með þeim hætti að Helgi Magnús sendi ríkissaksóknara tölvupóst í mars 2010, þess efnis að fulltrúi tiltekins kröfuhafa hefði farið fram á að fá afhent afrit af gögnum sem embætti Skattrannsóknarstjóra hafði aflað með húsleit, meðal annars hjá FL Group.

Gögnin hafði embættið sent saksóknara efnahagsbrotadeildar RLS og tengdust þau viðskiptum FL Group með flugfélagið Sterling. Fulltrúinn sem bað um afritið kvaðst álíta að aðgerðir stjórnar og forstjóra FL Group hefðu valdið tilteknum hluthöfum tjóni og íhuguðu þeir að leita réttar síns.

Í tölvupóstinum leitaði saksóknari efnahagsbrota óformlegs álits ríkissaksóknara á afhendingu gagnanna. Ríkissaksóknari kvaðst í svari ekki hafa forsendur til að meta málið, en mælti ekki gegn afhendingu að tilteknum atriðum uppfylltum.

Saksóknari efnahagsbrota RLS afhenti síðan fulltrúanum gögnin. Upplýsingar úr þeim birtust síðar í fjölmiðlum og kærði lögmaður Hannesar ríkissaksóknara og saksóknara efnahagsbrota í framhaldi af því, hinn fyrrnefnda fyrir samráð um afhendingu gagnanna og hinn síðarnefnda fyrir afhendingu þeirra.

Meðal annars er bent á að rík þagnarskylda um rekstur og viðskipti FL Group hafi verið brotin. Vísað er til lagagreina sem kveða á um viðurlög við brotum af þessu tagi sem geta verið allt að þriggja ára fangelsi.

Lögmaður Hannesar fór fram á að Valtýr Sigurðsson viki sæti við meðferð málsins. Sá síðarnefndi sendi beiðni þess efnis til dómsmálaráðuneytisins, sem setti Guðjón Ólaf Jónsson hæstaréttarlögmann til að fara með málið á hendur Valtý ríkissaksóknara og Helga Magnúsi saksóknara efnahagsbrotadeildar RLS.

jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×