Innlent

Mæður sem gefa brjóstamjólkina sína

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mynd úr safni
Alþjóðlegu mjólkurskiptasamtökin svokölluðu Eats On Feets hafa nú náð til Íslands og hefur verið stofnuð síða á Facebook fyrir íslenskar mæður sem vantar brjóstamjólk fyrir barnið sitt og langar að finna mjólkandi konur sem vilja gefa af mjólkinni sinni.

Á síðunni segir að mæður geti til dæmis nýtt sér síðuna þegar mjólkurmyndun er ekki komin nógu vel af stað, svo sem eftir fyrirburafæðingu, ef móðurin þarf að leggjasti inn á spítala eða fara í aðgerð, og ef móðirin verður nauðsynlega að fara frá brjóstabarna í nokkra daga.

Aðeins eru örfáir dagar síðan síðan fór í loftið en þegar hafa á áttunda tug skráð sig þar.

Í samskiptareglum á síðunni segir:

„Ef þú ert móðir, sem ætlar að gefa mjólk, eða foreldri, sem sárvantar brjóstamjólk fyrir ungann sinn, vinsamlegast sendu inn skilaboð um framboð eða „óska eftir" ásamt póstnúmeri, þar sem þú býrð, á viðeigandi stöðum í umræðum. Sendið hvort annarri svo einkaskilaboð til að koma ykkur saman um smáatriðin sem varða samstarfið. Þetta er gert til að vernda einkalíf hverrar fjölskyldu."

Mjólkurskiptin á eigin ábyrgð

Þá er lögð mikil áhersla á að fólk ber sjálft ábyrgð á mjólkurskiptum sem fara fram í gegn um síðuna. „Mjólkurskipti á þessari síðu eiga sér stað í anda upplýsts vals, og allir, sem pósta hér, eru að taka fulla ábyrgð á mjólkurskiptunum," segir þar.

Vakin er athygli á því að veik kona getur smitað barn í gegn um móðurmjólk og bent á að hægt er að fara í blóðrannsókn á næstu heilsugæslustöð.

Þá eru þær sem huga að mjólkurskiptum hvattar til að ræða heilsufars- og áhættutengdar spurningar við heilbrigðisstarfsfólk.



Löglegt að gefa brjóstamjólk


Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu er löglegt að gefa mjólk.

Eats On Feets eru velgjörðarsamtök og er ekki leyfilegt að selja mjólk í gegn um síðuna.

Fréttablaðið greindi frá því á dögunum að Ísland er eina landið á Norðurlöndum sem ekki er með mjólkurbanka þar sem hægt er að sækja brjóstamjólk í neyðartilfellum, eins og handa fyrirburum.

Arnheiður Sigurðardóttir, lýðheilsufræðingur og brjóstagjafaráðgjafi, sagði að úr þessu þyrfti að bæta.

Tenglar:

Facebook-síða Eats On Feets fyrir íslenskar mæður

Alþjóðleg upplýsingasíða um Eats On Feets




Fleiri fréttir

Sjá meira


×