Tónlist

Tónlistin eins og Trójuhestur

Beach House Hljómsveitin spilar á Listasafni Reykjavíkur í kvöld og bíða margir spenntir eftir tónleikunum.
Beach House Hljómsveitin spilar á Listasafni Reykjavíkur í kvöld og bíða margir spenntir eftir tónleikunum.
Draumpoppararnir í Beach House spila í Listasafni Reykjavíkur í kvöld. Sveitin hefur verið að semja efni á nýja plötu og eru þetta fyrstu tónleikar hennar í tvo og hálfan mánuð.

Beach House er eitt af stóru nöfnunum á Airwaves-hátíðinni í ár. Þessi bandaríska hljómsveit frá borginni Baltimore spilar í Listasafni Reykjavíkur í kvöld og má búast við fullu húsi og mögulega langri biðröð fyrir utan staðinn.

Beach House er skipuð þeim Alex Scally og Victoriu Legrand og hafa þau gefið út þrjár plötur. Sú síðasta, Teen Dream, var af mörgum talin ein sú besta á síðasta ári. Til dæmis fékk hún 9 af 10 í einkunn bæði hjá NME og Pitchfork.

Í viðtali við Fréttablaðið segist Scally hlakka mikið til að spila á Airwaves. „Við höfum ekki spilað á tónleikum í tvo og hálfan mánuð og það er líka alltaf mjög spennandi að spila í fyrsta sinn í nýju landi,“ segir hann afslappaður. Ástæðan fyrir tónleikaleysinu er sú að Beach House hefur verið að semja ný lög fyrir næstu plötu sína. „Við vorum á tónleikaferð nánast allt síðasta ár og í byrjun þessa árs. Núna höfum við verið að semja eins mikið og við höfum getað.“ Spurður hvernig nýju lögin hljómi segir hann: „Það verða aðrir að meta það. Þessar lagasmíðar eru bara eðlilegt framhald fyrir okkur. Við förum í tónleikaferðir og semjum síðan lög. Það er bara það sem við gerum.“

Beach House var stofnuð árið 2005. Scally spilar á gítar og hljómborð og Legrand syngur og spilar á orgel. Hann er frá Baltimore en hún er fædd í Frakklandi. „Við hittumst í Baltimore. Ég er þaðan en Victoria flutti þangað, eiginlega til að spila tónlist. Eitt leiddi af öðru. Ætli örlögin hafi ekki verið að verki.“

Hvernig náið þið tvö saman? „Mjög vel. Ég held að það sé um tvennt að ræða þegar hljómsveitir vinna mikið saman og túra. Annað hvort hatar fólk hvert annað eða er mjög náið og þannig erum við. Við erum öll góðir vinir í hljómsveitinni og berum virðingu hvert fyrir ððru.“

Lög Beach House eru frekar hæg og útsetningarnar stemningsfullar. Þess vegna hefur tónlistin verið skilgreind sem draumpopp. Scally hefur ekkert út á nafngiftina að setja.

„Fólk hefur þörf fyrir að flokka hluti og ef fólk vill setja okkur í þennan flokk er það bara allt í lagi. Við byggjum að mörgu leyti lögin okkar upp eins og popplög og að bendla okkur við popp er því rökrétt. Þegar fólk blandar draumum inn í þetta er það að tala um hljóðfærin og hljómana sem við notum til að búa til þessa tónlist sem við elskum.“

Þessi tónlist snýst mikið um að búa til rétta andrúmsloftið, ekki satt? „Jú, og þetta er líka dálítið eins og með Trójuhestinn. Að lauma einhverju risavöxnu inn í herbergið.“

Eftir tónleikana í kvöld ætla Scally og félagar að dvelja áfram hér á landi og verða hér á morgun og meirihluta laugardagsins. „Við ætlum að leigja bíl, fara á fleiri tónleika og reyna að kynnast landinu betur,“ segir draumpopparinn.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.