Skoðun

Fordæmi í jafnréttismálum

Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar
Á þriðjudag féll í Héraðsdómi Reykjaness dómur í máli félagsmanns BSRB gegn atvinnurekanda sínum varðandi kynferðislega áreitni á vinnustað og viðbrögð atvinnurekanda við kvörtun þar um.

Dómurinn hefur mikið fordæmisgildi þar sem tekin er afstaða til þess hvort ákveðið athæfi hafi verið kynferðisleg áreitni á vinnustað og hvort atvinnu­rekandi hafi brugðist við með réttum hætti í kjölfar atviksins samkvæmt skilgreiningum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Málið hefur þar af leiðandi mikla þýðingu fyrir allt launafólk enda viðurkennd rík ábyrgð atvinnurekanda í slíkum málum.

Niðurstaða dómsins var að um kynferðis­lega áreitni hefði verið að ræða og að starf konunnar hefði ítrekað verið rýrt að henni forspurðri eftir að hún kvartaði. Frá því að kvörtunin var lögð fram hafi starfsumhverfi hennar allt þróast í þá áttina að skerða starfsánægju hennar og væntingar til þess starfs sem hún var í fyrir atburðinn. Atvinnurekanda hafi verið fullkunnugt um vanlíðan konunnar eftir atburðinn en með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi hafi verið brotið á henni. Það hafði þau áhrif að konunni var gert ókleift að halda starfi sínu áfram óbreyttu. Þannig hafi atvinnurekandi í raun haldið henni frá starfi þrátt fyrir að enn væri gildur ráðningarsamningur fyrir hendi milli þeirra.

Dómurinn felur í sér mikilvægar leiðbeiningar um hvernig atvinnurekendur eigi að bregðast við aðstæðum sem þessum. Samkvæmt honum skal grípa til viðeigandi ráðstafana og gæta þess að slík atvik hafi ekki áframhaldandi áhrif á störf og líðan starfsmanns.

Aðstæður í þessu máli voru þannig að gerandinn, sem var yfirmaður konunnar, var áminntur og hélt því sinni stöðu en þolandinn var færður til í starfi. Því miður er ekki um einsdæmi að ræða heldur þvert á móti virðist sem einelti og/eða kynferðisleg áreitni bitni að jafnaði á þolanda og oftast þannig að að hann kjósi að láta af störfum. Kominn er tími til að venda kvæði í kross. Með breyttum tíðaranda, aukinni þekkingu og auknum skyldum á herðum atvinnurekenda er kominn tími til að einelti, kynferðisleg áreitni eða annað til þess fallið að valda starfsmönnum vanlíðan á vinnustað, bitni ekki á þolanda.

 




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×