Erlent

Bráðabirgðastjórn á herteknu svæðunum

Ismail Haniya Leiðtogi Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu hélt blaðamannafund að loknum föstudagsbænum múslima í gær, tveimur dögum eftir að samkomulag tókst við Fatah.nordicphtos/AFP
Ismail Haniya Leiðtogi Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu hélt blaðamannafund að loknum föstudagsbænum múslima í gær, tveimur dögum eftir að samkomulag tókst við Fatah.nordicphtos/AFP
Leiðtogar tveggja helstu fylkinga Palestínumanna, Fatah og Hamas, stefna á að hittast í Kaíró á þriðjudaginn í næstu viku til að undirrita og staðfesta sögulegan samning þeirra, sem kynntur var á miðvikudaginn.

Samningurinn felur í sér samstarf Hamas og Fatah um bráðabirgðastjórn á herteknu svæðunum, bæði Vesturbakkanum og Gaza. Þá er stefnt að kosningum innan árs.

Samkvæmt samkomulaginu verður Mahmoud Abbas, leiðtogi Fatah, áfram forseti Palestínustjórnar fram að kosningum.

Palestínumenn virðast ekki gera sér neinar vonir um friðarsamkomulag við Ísrael á næstunni og stefna að því að óska næsta haust viðurkenningar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á sjálfstæðu Palestínuríki.

Abbas sagðist þó í gær koma strax til að ræða við Ísraela, bjóði þeir honum til viðræðna, en þó með því skilyrði að framkvæmdir tengdar ísraelskum landtökumönnum verði stöðvaðar. Ísraelskum stjórnvöldum líst hins vegar ekkert á blikuna og segja að Abbas hafi nú gengið til liðs við hryðjuverkamenn, vegna þess að Hamas hafi það enn á stefnuskrá sinni að eyða Ísraelsríki. Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ísland-Palestína, segir að Hamas-samtökin hafi þó í reynd viðurkennt tilverurétt Ísraelsríkis.

„Palestínska þjóðin og öll stjórnmálaöfl hennar, þar með talin Hamas, hafa lýst yfir vilja til að stofna sjálfstætt ríki innan landamæranna frá 1967,“ segir Sveinn Rúnar. „Í því felst söguleg eftirgjöf á 78 prósentum lands Palestínu undir Ísraelsríki.“

Sveinn Rúnar segir að í þessu felist að sjálfsögðu viðurkenning á Ísraelsríki, „þótt áróðursmeistarar þess virðist trúa á aðferðir Göbbels, að fólk trúi því á endanum sem er endurtekið nógu oft“.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×