Innlent

Tíu þúsund kassar hverfa á hverju ári

Hver kassi kostar 1.200 til 1.500 krónur. Með því að skila þeim ekki valda menn öðrum tjóni.fréttablaðið/
Hver kassi kostar 1.200 til 1.500 krónur. Með því að skila þeim ekki valda menn öðrum tjóni.fréttablaðið/
Sölufélag garðyrkjumanna tapar 12 til 15 milljónum króna á ári vegna affalla á kössum sem grænmetið er flutt í til verslana.

„Við ákváðum að hætta notkun á pappakössum og keyptum í staðinn græna plastkassa sem eru umhverfisvænir og endurnýtanlegir. Þeir hafa verið í notkun í yfir áratug en undanfarin þrjú ár hafa horfið um 10 þúsund kassar ári. Afföllin voru miklu minni fyrir þann tíma,“ segir Gunnlaugur Karlsson, framkvæmdastjóri sölufélagsins.

Að sögn Gunnlaugs sköpuðust vandræði í fyrra vegna skorts á plastkössum en félagið er með 60 til 70 þúsund kassa í umferð. „Við lentum í stórvandræðum í fyrra því að kassarnir gufuðu hreinlega upp. Við þurftum að kaupa 10 til 15 þúsund frauðplastkassa til þess að koma uppskerunni á markað því það vantaði alla kassana sem við vorum nýbúnir að kaupa.“

Framkvæmdastjórinn kveðst hafa frétt af slíkum kössum í sumarbústöðum þar sem þeir voru notaðir undir eldivið og í bílskúrum. „Þetta er á ótrúlegustu stöðum. Heilu bakaríin virðast nota þetta undir brauð og stóreldhús undir hnífapör og diska. Ég á mynd af svona kassa um borð í varðskipi. Fólk virðist grípa þetta með sér en gerir sér ekki grein fyrir alvöru málsins. Svo verða allir voðalega æstir og reiðir þegar við tölum um þessa kassa.“

Gunnlaugur segir ómögulegt að skrá hversu margir kassar fara inn og út af hverjum stað. „Það er ekki nokkur lifandi leið að halda utan um þetta. Flutningafyrirtækin safna kössunum saman og koma með þá í þvottastöðina. Í því samhengi má benda á að það skapast vinna við þvottinn á þessum plastkössum auk þess sem við komum í veg fyrir innflutning á allt að tíu gámum af einnota pappaumbúðum vegna notkunar plastkassanna.“

Hver kassi kostar 1.200 til 1.500 krónur, að sögn Gunnlaugs. „Það fást sambærilegir kassar í til dæmis IKEA og Rúmfatalagernum. Ég held að fólk sé ekkert að pæla í því að með því að grípa þessa kassa með sér valdi það öðrum tjóni. Einhver þarf að borga þetta á endanum. Garðyrkjubændur greiða hærra gjald fyrir notkun á kössunum og svo leggst þetta út í verðlagið. En við viljum vera umhverfisvænir og þess vegna ætlum við ekki að fara að nota pappakassa á ný.“

Grænu plastkassana kaupir sölufélagið frá Englandi. „Þar er mikill fjölda kassa í umferð en afföllin eru bara brot af því sem þau eru hér,“ segir Gunnlaugur.

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×