Innlent

Fékk sér plokkfisk og var færður til skýrslutöku

Valur Grettisson skrifar

„Við vorum saman í mat þegar óeinkennisklæddir lögreglumenn komu að okkur," segir Jón P. Líndal, samstarfsmaður Ástþórs Magnússonar, sem var færður til skýrslutöku fyrir utan Byko í Kópavoginum í hádeginu.

Jón og Ástþór höfðu fengið sér plokkfisk í hádegismat þegar tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn eiga að hafa gengið upp að þeim en sá þriðji beið í bifreið skammt frá.

Jón segir lögreglumennina hafa gefið upp erindi sitt og óskað eftir því að Ástþór kæmi með þeim á lögreglustöðina þar sem þeir ætluðu að taka skýrslu af honum vegna kæru sem Ástþór segir Hrein Loftsson hafa lagt fram, þegar hann var eigandi DV, vegna ummæla sem finna má á heimasíðunni Sorprit.com.

Jón P. Líndal fékk sér plokkfisk með Ástþóri áður en hann var handtekinn.

Ástþór neitar að svara því hvort hann tengist síðunni.

Í viðtali í síðustu viku á Vísi gagnrýndi Ástþór lögregluna fyrir að ganga erinda glæpamanna. Þá sagði Ástþór: „Er það eðlilegt að bankaræningjar og skósveinar þeirra gangi lausir á meðan þeir sem gagnrýna eru ofsóttir af lögreglunni? Ég ætla ekki að mæta í yfirheyrslu á meðan lögreglan vinnur svona."

Ástþór var boðaður í skýrslutöku 30. desember en mætti ekki í hana. Því var hann færður á lögreglustöðina í dag.

Jón sagðist ekki vita á hvaða lögreglustöð Ástþór var færður. Aðspurður hvort Ástþór hefði verið handjárnaður svaraði Jón því til að svo hefði ekki verið. Ástþór fór með þeim af fúsum og frjálsum vilja.


Tengdar fréttir

Ástþór Magnússon boðaður í yfirheyrslu hjá lögreglu

„Ef lögreglan vill handtaka mig þá er það ekkert mál. Ég er ekkert að fela mig. Ég lét lögregluna vita að ég yrði á Íslandi yfir jólin,“ segir Ástþór Magnússon. Hann kveðst hafa verið boðaður í yfirheyrslu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu klukkan eitt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×