Handbolti

Ólafur: Þjóðverjar með bestu skyttur í heimi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson hefur góða tilfinningu fyrir HM í Svíþjóð sem hefst í næstu viku eftir tvo sigra í æfingaleikjum gegn Þýskalandi um helgina.

„Varnarleikurinn var mjög góður á flestum stundum, alveg eins og í gær," sagði Ólafur í samtali við Vísi, spurður um hvað hefði staðið upp úr.

„Svo var markvarslan líka ágæt," bætti hann við eftir að Björgvin Páll Gústavsson hafi verið að vekja athygli á sér í bakgruninnum, eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir ofan.

„Innkoman hjá Kára var mjög góð og Aron var líka góður. En ég vil ekki undanskilja neinn. Við vorum allir mjög þéttir. Það vita allir hvað þeir eiga að gera, bæði í sókn og vörn enda mjög gott að halda Þjóðverjum undir 30 mörkum."

„Þjóðverjar eru miklu sterkari en þeir sýndust vera hér um helgina. Þeir eru með bestu skyttur í heimi en þeir fengu bara ekki sínar flugbrautir í dag. Vörnin var alveg frábær."

Hann hafði aldrei áhyggjur af liðinu þó svo að það hafi hikstað í leikjum sínum í haust.

„Nei, ég var mjög spenntur ef ég á að segja eins og er. Við erum búnir að vera að tala mikið um vörnina og skrifa niður ákveðnar grundvallarreglur - hjálparreglur líka. Ég er spenntur að sjá hvernig það mun þróast hjá okkur en ég held að Guðmundur sé mjög ánægður með þetta."

„Vonandi höldum við áfram að vaxa í þessum móti. Það verður strax erfiður leikur á móti Ungverjum í fyrsta leik og það er strax úrslitaleikur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×