Innlent

Tekur langan tíma að vinna upp það sem tapast

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands
Efldar rannsóknir, doktorsnám og fleira starfsfólk við Háskóla Íslands eru lykilatriði til að hann geti komist í röð hundrað bestu háskóla í heimi. Þetta er mat Kristínar Ingólfsdóttur rektor skólans sem segir vísindaárangur vera helstu forsendu fyrir góðu gengi háskóla.

Háskóli Íslands á aldarafmæli 17.júní næstkomandi. Í tilefni af því kynnti Kristín Ingólfsdóttir rektor skólans í gær langtímamarkmið og stefnu HÍ til næstu fimm ára. Hún sagði skólayfirvöld ekki ætla að hvika frá fyrri markmiðum og stefnt væri á að koma Háskólanum í röð hundrað bestu í heiminum. Nú væri hann meðal fimm hundruð bestu. Það tæki hins vegar lengri tíma en stefnt hefði verið að og rektor kallaði eftir auknu fjármagni til að framfylgja þessum markmiðum.

Kristín segir að efla þurfi rannsóknir og doktorsnám við skólann þar sem vísindaárangur er lykilatriði fyrir góðu gengi háskóla. Auk þess þurfi að ráða fleira starfsfólk til skólans. Hún segist bjartsýn á að stjórnvöld sýni þessum langtímamarkmiðum skilning og vilji koma til móts við Háskóla Íslands sem þarf nú að takast á við niðurskurð fjárveitinga þriðja árið í röð.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir samfélagið að sá árangur sem hefur náðst að tapist ekki því það tekur mjög langan tíma að vinna upp aftur það sem tapast," segir Kristín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×