Innlent

Fjölmargir hundar týndust

Hreiðar Karlsson með einn skjólstæðinga sinna.
Hreiðar Karlsson með einn skjólstæðinga sinna.
„Ég veit að það týndist hellingur af hundum í kringum áramótin og þrír eða fjórir þeirra eru enn týndir," segir Hreiðar Karlsson, eigandi hundahótelsins á Leirum. Hann segir fólk hafa byrjað að hringja að Leirum þegar fyrir áramót til að spyrjast fyrir um hunda sem höfðu týnst.

Óskilahundar sem teknir eru í lausagöngu eru fluttir að Leirum og geymdir þar uns eigendur vitja þeirra eða gerðar eru aðrar ráðstafanir.

„Það kom aðeins einn óskilahundur til okkar núna, sem betur fer," segir Hreiðar, en bætir við að hundahótelið hafi verið fullbókað bæði um jól og áramót.

„Fólk er farið að læra að það er miklu betra að setja hundana á hundahótel heldur en að týna þeim með tilheyrandi kostnaði," útskýrir Hreiðar og bætir við að margir komi hundum sínum úr borginni um áramót. Hann segir hundaeigendur og þá sem voru að passa hunda hafa hringt í hrönnum að Leirum til að spyrjast fyrir um hvort hundarnir þeirra væru komnir þangað.

„Það á aldrei að setja hund í pössun á þessum árstíma," undir­strikar Hreiðar. „Hundagreyin þekkja ekki fólkið og vilja bara komast heim til sín. Þeir stinga því af við fyrsta tækifæri, ekki síst í öllum þessum sprengju­látum." - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×