Innlent

60 þúsund veiktust af svínaflensu

Bólusett Enn er fólk hvatt til að láta bólusetja sig gegn svínainflúensu.
fréttablaðið/vilhelm
Bólusett Enn er fólk hvatt til að láta bólusetja sig gegn svínainflúensu. fréttablaðið/vilhelm
Talið er að um 60 þúsund manns hafi veikst af svínainflúensu hérlendis. Um 170 voru lagðir inn á sjúkrahús vegna hennar haustið 2009. Af þeim þurfti að leggja 22 inn á gjörgæsludeild. Lágu margir í öndunarvélum vikum saman.

Þetta kemur fram í svari velferðar­ráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur Framsóknarflokki.

Í svarinu segir að talið sé að bólusetninging haustið 2009 hafi komið í veg fyrir um 15-20 þúsund tilfelli af svínainflúensu, 60-80 sjúkrahúsinnlagnir og 6-8 tilfelli á gjörgæslu. Önnur bylgja flensunnar sé að sækja í sig veðrið og þegar hafi kona um þrítugt, sem ekki var bólusett, verið lögð inn á gjörgæsludeild til meðferðar í öndunarvél.

Vigdís spurði meðal annars um kaup á bólusetningarefni. Voru 300 þúsund skammtar keyptir og nam kostnaðurinn 381 milljón króna.

Um 150 þúsund manns hafa verið bólusettir og því eru um 150 þúsund skammtar til á lager. Hluti bóluefnisins rennur út í lok október á þessu ári en annar hluti þess ári síðar. Enn er fólk hvatt til að láta bólusetja sig.

Fram kemur að 66 prósent fólks 68 ára og eldri hafi verið bólusett, 44 prósent 19-68 ára og 48 prósent 0-18 ára.

Vigdís spurði jafnframt hvort dæmi væru um alvarleg eftirköst eftir bólusetningu. Segir í svarinu að vitað sé um tvö tilfelli sem flokkast sem alvarleg. Tengdust þau bráðaofnæmi fyrir bóluefninu en báðum einstaklingum farnaðist vel.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×