Innlent

Íslenskur sendifulltrúi til Líbíu

Áslaug að störfum í Pakistan.
Áslaug að störfum í Pakistan.
 Áslaug Arnoldsdóttir sendifulltrúi Rauða kross Íslands heldur til Líbýu nú á sunnudag þar sem hún mun starfa sem hjúkrunarfræðingur með Alþjóða Rauða krossinum í borginni Benghazi, en þangað hefur sært fólk verið flutt af átakasvæðunum í Líbýu til að veita þeim læknisaðstoð. Áslaug er einn reyndasti sendifullrúi Rauða kross Íslands og hefur áralanga reynslu af störfum á átakasvæðum. Hún fór fyrst sem sendifulltrúi Rauða krossins árið 1996 þar sem hún starfaði á sjúkrahúsi Alþjóða Rauða krossins í Suður-Súdan og hefur síðan unnið m.a. í Georgíu, Írak, Líbanon, Eþíópíu, Úganda, og nú síðast í Pakistan og á Haítí.

Mörg hundruð manns hafa látist síðan átök milli stjórnarhers og uppreisnarmanna í Líbýu brutust út í febrúar og þúsundir hafa særst. Gífurleg eyðilegging hefur átt sér stað á heimilum og opinberum byggingum eins og sjúkrahúsum. Vatns- og rafmagnsveitur hafa einnig verið sprengdar í loft upp svo lífskilyrði fólks eru mjög erfið á þessu svæði að því er segir í tilkynningu frá Rauða krossinum. „Nokkur hundruð þúsund manns hafa flúið Líbýu undanfarið, einkum til nágrannaríkjanna Túnis og Egyptalands."

Þá segir að frá upphafi átakanna hafi Alþjóða Rauði krossinn útvegað mat, lyf og önnur hjálpargögn fyrir hálfa milljón manna í Líbýu, aðstoðað 60.000 manns við að ná sambandi við ástvini handan víglínunnar, flutt 2.500 útlendinga úr landi og heimsótt 400 fanga - bæði í haldi stjórnvalda og uppreisnarmanna.

„Utanríkisráðuneytið hefur veitt Rauða krossi Íslands 5 milljóna króna styrk vegna hjálparstarfsins í Líbýu. Það fer sem framlag til hjálparstarfs Alþjóða Rauða krossins í Líbýu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×