Innlent

„Við höfum náð árangri og erum að vinna okkur út úr erfiðleikunum“

Forsætisráðherra sagði á Alþingi í morgun að framtíðin væri björt á Íslandi og ekki mætti tala efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar niður, og þannig draga kjarkinn úr þjóðinni.

Þingfundur hófst að nýju í morgun eftir að hlé var gert á löggjafarþinginu í sumar. Þingið mun starfa næstu tvær vikurnar og verður svo nýtt þing sett 1. október næstkomandi. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hóf þingfundinn með munnlegri skýrslu um stöðuna í efnahags- og atvinnumálum og sagði meðal annars að bjartari tímar væru framundan á Íslandi.

„Þegar allt er sett í samhengi og horft til þessa þunga áfalls sem hrunið var þjóðinni, segi ég óhikað: Við höfum náð árangri og erum að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Allir sanngjarnir menn sjá að hér hefur margt áunnist. Seðlabankinn spáir að hagvöxtur verði að meðaltali 2,7 prósent árin 2011 til 2013, 2,8 prósent í ár, 1,6 prósent á því næsta og 3,7 prósent árið 2013,“ sagði Jóhanna.

Þá sagði forsætisráðherra að kaupmáttur launa hafi ekki verið hærri frá efnahagshruninu í október 2008 og í júní hafi hann verið tveimur komma sex prósentum meiri en á sama tíma í fyrra. Þá sé störfum að fjölga og atvinnuleysi sé að ganga niður, sem sé til vitnis um að þjóðin sé á réttri leið.

„Hrunið sópaði burt 12 til 13 þúsund störfum, eða nær fjórtanda hverju starfi. En nú hefur störfum tekið að fjölga á ný og úr atvinnuleysinu að draga. Í júlí var atvinnuleysi 6,6 prósent og hefur það ekki verið lægra síðan í desember 2008. Ríkisstjórnin hefur lagt þunga áherslu á vinnumarkaðsaðgerðir sem miða að því að byggja upp þá sem eru án atvinnu. Í því skyni verður þúsund atvinnuleitendum boðin skólavist í haust og næstu tvö árin.“

Tölur hagstofunnar sýni að störfum hafi fjölgað um þrjú þúsund og sex hundruð á síðustu tveimur árum og þúsundir starfa hafi verið varin. Þá sagði hún að ríkisstjórnin hafi setið undir ómaklegri gagnrýni um dugleysi í atvinnumálum, meðal annars frá forsvarsmönnum atvinnulífsins. Hún vísaði þeirri gagnrýni á bug.

Þá sagði hún að ríkisstjórnin hafi fylgt skýrri stefnu í efnahags- og atvinnumálum og á næstu árum munu sjö þúsund ný störf skapast með beinum hætti og hér verði fjárfestingar upp á 80 til 90 milljarða króna, og þá séu ekki taldar með fjárfestingar í orku- og stóriðjugeiranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×