Innlent

Enn vatnslaust eftir Grímsvatnagos

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Bærinn Múlakot á Kirkjubæjarklaustri hefur verið vatnslaus síðan Grímsvötn gusu í vor á þessu ári. Sigurður Baldursson, íbúi á Múlakoti, segir hvern einasta dag hefjast á því að hann keyri yfir á næsta bæ með 1000 lítra vatnsker að sækja vatn ofan í fólkið og skepnurnar. „Og svo erum við bara að andskotast í þessu allan daginn og langt fram á kvöld," segir Sigurður.

Vatnsbrunnur á Múlakoti þornaði í kjölfar gossins. Íbúarnir boruðu þá eftir vatni, eins og fleiri íbúar þar í sveit í baráttunni við vatnsskortinn. Borholan á Múlakoti skilaði hins vegar ekki því sem hún átti að skila, reyndist þurr.

„Foreldrar mínir eiga búið. Og þau eru bara komin á það stig að þau vilja hætta og leggja þetta allt niður," segir Sigurður, en hann kveðst hafa sent tölvupósta á allt og alla en ekkert gerist.

„Ég veit þau hafa átt í bölvuðu basli þarna á Múlakoti," segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri á Kirkjubæjarklaustri.

Hún segir sveitarfélagið hins vegar ekki bera ábyrgð á því að koma vatni á bæinn. „Það eru þau sjálf sem þurfa að koma sér í vatn. Við munum aftur aðstoða þau eins og við getum," segir Eygló, en hún er nýkomin úr sumarfríi og getur ekki sagt nákvæmlega til um í hvaða farvegi málið er núna.

„Þetta mun leysast," segir Eygló. „Þetta er allt spurning um pening sko." bætir hún við en getur ekki sagt til um hve langt sé í lausnina. Hún snýr aftur til vinnu eftir helgi og mun þá fara yfir málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×