Innlent

Réttað yfir meintum mannræningja - móðursystir kom honum í fangelsi

Valur Grettisson skrifar
Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra.

Aðalmeðferð í akureyska pyntingamálinu hófst klukkan hálf tíu í morgun en einn hinna ákærður var úrskurðaður í gæsluvarðhald um áramótin eftir að í ljós kom að hann hafði ítrekað hótað vitni sem gefur skýrslu í dómsalnum í dag.

Málið sem um ræðir varðar frelsissviptingu ungs manns. Tveir karlmenn og kona tóku hann í gíslingu á Akureyri í ágúst 2009. Maðurinn þurfti að þola pyntingar og að vera laminn með járnröri í lappirnar. Þá eru þremenningarnir sakaðir um að hafa kastað logandi klósettpappír í manninn og hafa með því stofnað öðrum íbúum í fjölbýlishúsi, sem þau voru stödd í, í stórhættu.

Ástæðan fyrir pyntingunum mun hafa verið 30 þúsund króna fíkniefnaskuld. Lögreglan kom að lokum á vettvang og frelsaði manninn frá kvölurum sínum.

Sami maður og er sakaður um að hóta vitninu ítrekað, með það að markmiði að breyta framburði hans, var dæmdur árið 2009 í 10 mánaða fangelsi fyrir að hafa haft undir höndum tæplega 500 E-töflur.

Það var móðursystir mannsins sem fann E-töflurnar á heimili sínu og afhenti þær lögreglu í desember 2008.

Hjá lögreglu sagðist maðurinn hafa keypt töflurnar af ónefndum manni skömmu fyrir jól, og greitt fyrir þær bíl og 200 þúsund krónur að auki. Hann hafi hinsvegar fengið bakþanka og reynt að láta viðskiptin ganga til baka, en sá sem seldi honum töflurnar hafi ekki svarað í símann. Hann hafi því falið töflurnar inni á baðherbergi móðursystur sinnar meðan hann færi norður til Akureyrar.

Refsing mannsins var óskilorðsbundin en hann á langan afbrotaferil að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×