Innlent

Eyða ágengum plöntum í Vatnsmýri

Endurheimta á votlendi og tryggja á fuglunum á Reykjavíkurtjörn öruggt varpsvæði í friðlandi Vatnsmýrar.
Fréttablaðið/Arnþór
Endurheimta á votlendi og tryggja á fuglunum á Reykjavíkurtjörn öruggt varpsvæði í friðlandi Vatnsmýrar. Fréttablaðið/Arnþór
Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands og Norræna húsið eru komin í samstarf um friðland í Vatnsmýrinni.

„Tillögur um aðgerðir fela meðal annars í sér að tryggja Tjarnarfuglum öruggt varpland, uppræta ágengar plöntur og endurnýja og viðhalda líffræði­legum fjölbreytileika á svæðinu,“ segir í bréfi Kristínar Ingólfsdóttur, rektors Háskóla Íslands, og Max Dager, forstöðumanns Norræna hússins, til borgar­ráðs sem samþykkti að hefja viðræður við þessa aðila um málið.

Í bréfi Kristínar og Dager kemur fram að svæðið afmarkist af Hringbraut að norðanverðu, Njarðargötu að austanverðu og Norræna húsinu og Öskju að sunnanverðu. Mörkin til vesturs liggja hins vegar ekki endanlega fyrir.

Undanfarin misseri hafi ýmsar hugmyndir verið nefndar og kalla eftir áliti bæði innlendra og erlendra vísindamanna og sérfræðinga.

„Margar áhugaverðar tillögur hafa komið fram er eiga það sameiginlegt að ýta undir náttúruvernd, endurheimt votlendis og áhuga almennings og ungs fólks á umhverfismálum. Eitt af meginmarkmiðum er að nýta friðlandið sem lifandi vettvang fyrir rannsóknir í náttúruvísindum og til fræðslu fyrir börn og almenning,“ segja Kristín og Dager í áðurnefndu bréfi sínu. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×