Erlent

Svarar engu um framboð

Dmitrí Medvedev á stærsta blaðamannafundi sínum sem forseti til þessa.
Dmitrí Medvedev á stærsta blaðamannafundi sínum sem forseti til þessa. Mynd/AP
Dmitrí Medvedev Rússlandsforseti blés til mikils blaðamannafundar í gær þar sem hann svaraði spurningum í heila klukkustund. Þótt hann hafi engu svarað um það hvort hann ætli að bjóða sig aftur fram til forseta næsta kjörtímabil má líta á blaðamannafundinn sem fyrsta skref hans í þá áttina að gera sig gildandi í augum þjóðarinnar gegn vini sínum Vladimír Pútín.

 

Hvorki Pútín né Medvedev hafa svarað því hvor þeirra ætli að bjóða sig fram í forsetakosningunum á næsta ári en þeir hafa þó sagt að þeir muni taka sameiginlega ákvörðun um það.

 

Pútín var forseti Rússlands í rúmlega tvö kjörtímabil, frá 1999 til 2008, og naut mikilla vinsælda meðal Rússa en mátti ekki bjóða sig fram til þriðja kjörtímabilsins í röð. Hann má hins vegar bjóða sig fram næst og hefur þá möguleika á að sitja í tólf ár samtals því kjörtímabilið hefur verið lengt úr fjórum árum í sex.

 

Medvedev lagði áherslu á að þeir Pútín væru að mestu sammála um stefnuna í öllum helstu málaflokkum en dró samt fram áherslumun í nokkrum veigamiklum málum.

 

Hann sagðist meðal annars ósammála Pútín um það hversu hratt ætti að nútímavæða Rússland. „Hann telur að nútímavæðingin sé hægfara ferli sem þróast stig af stigi,“ sagði Medvedev. „En ég tel að við höfum bæði tækifæri og alla burði til að fara hraðar í þá nútímavæðingu.“

 

Aðspurður sagði Medvedev einnig enga hættu stafa af olíujöfrinum Mikhaíl Khodorkovskí, þótt hann væri látinn laus úr fangelsi. Hann vildi hins vegar engu svara um það hvort hann hefði í hyggju að náða hann.

 

Lögfræðingur Khodorkovskís fagnaði þessari yfirlýsingu en sagði næsta skref vera að gefa upp hvenær hann yrði látinn laus. Mannréttindafrömuðir og stjórnarandstæðingar í Rússlandi hafa lengi barist fyrir því að Medvedev náði Khodorkovskí. Margir hafa talið réttarhöldin gegn Khodorkovskí ekkert annað en hefndarráðstöfun Pútíns, sem hafi látið fara svo mjög fyrir brjóstið á sér að Khodorkovskí hafi farið í harða samkeppni við rússneskan ríkisrekstur á olíufyrirtækjum. Erlendis hefur málið þótt hneisa fyrir rússnesk stjórnvöld.

Pútín hefur kallað Khodorkovskí þjóf og segir hann eiga ekkert annað skilið en að dúsa sem lengst í fangelsi. Medvedev hefur því greinilega dálítið aðrar áherslur í afstöðu sinni til Khodorkovskís en Pútín.

 

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×