Erlent

Fyrrverandi þingmanni boðið starf hjá Hustler

Weiner með eiginkonu sinni sem er ólétt. Hann var talinn líklegur til að bjóða sig fram til borgarstjóra í New York árið 2013.
Weiner með eiginkonu sinni sem er ólétt. Hann var talinn líklegur til að bjóða sig fram til borgarstjóra í New York árið 2013. Mynd/AFP
Larry Flint, sem um árabil hefur gefið út tímaritið Hustler, hefur boðið Anthony Weiner, fyrrverandi þingmanni demókrata, starf hjá fyrirtæki sínu. Flint er reiðubúinn að tuttugufalda þau laun sem Weiner hafði sem þingmaður og þá hyggst Flint gera vel við hann hvað sjúkratryggingar varðar.

Weiner sagði af sér þingmennsku í vikunni í kjölfar hneykslismáls sem hófst þegar klúrar ljósmyndir af honum, sem Weiner hafði tekið sjálfur og sent ókunnugum konum á netinu, komu í dagsljósið. Áður hafði Weiner logið því til að einhver hefði hakkað sig inn á Twitter síðu hans og sent myndirnar að sér forspurðum. Hann játaði síðan að hafa tekið myndirnar og sagt ósatt.

Weiner sagði loks af sér eftir að klámmyndaleikkona að nafni Ginger Lee steig fram og sagði Weiner hafi beðið sig um að ljúga til um samskipti þeirra, en þau skiptust á hátt í hundrað skilaboðum á netinu.

Hvað atvinnutilboðið frá Hustler varðar tekur Flint fram að tilboðið sé sett fram af fullri alvöru. Flint telur að reynsla Weiners úr stjórnmálum og af hinum rafrænu erótísku samskiptum við fjölda kvenna geta nýtst fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×