Innlent

Biðjast afsökunar á framferði sínu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tékkneska rútan var dregin upp úr lóninu. Mynd/ Lögreglan á Hvolsvelli.
Tékkneska rútan var dregin upp úr lóninu. Mynd/ Lögreglan á Hvolsvelli.
Tékkneska ferðaskrifstofan sem átti fjallarútuna sem sökk í Blautulónum um helgina biður Íslendinga og íslenska náttúru afsökunar á framferði sínu. Afsökunarbeiðnin kemur fram í bréfi sem Petr Novotný, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar, sendi á fjölmiðla nú í kvöld.

Í bréfinu er þeim Íslendinum sem komu að björgun fólksins sem var í rútunni þakkað fyrir veitta aðstoð. Einnig þeim sem veittu ferðamönnunum skjól eftir að þeim var bjargað.

Eftir að rútan sökk birtist myndskeið á YouTube sem sýndi mjög glæfralegt aksturslag rútubílstjórans. Þá hefur einnig komið í ljós að bílstjórinn varð uppvís að því að hafa ekið rútunni utan merktra vegaslóða.

En þótt ferðaskrifstofan biðjist afsökunar segist framkvæmdastjóri hennar að myndir sem birtust af ferðaskrifstofunni sýni hana ekki í réttu ljósi. Myndunum hafi verið stolið. Margar af fullyrðingunum um fyrirtækið séu beinlínis móðgandi.

Engu að síður harmar fyrirtækið atvikið í Blautulónum og segist vonast til þess að það endurtaki sig ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×