Innlent

Ráðherra um Skaupið: Gunnar Helgason betri en ég

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason. Mynd/GVA

„Mér fannst hann gera þetta vel og fólk sagði við mig að hann hefði jafnvel leikið mig enn betur en ég sjálfur. Það er alltaf gaman," segir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um Áramótaskaupið. Í því brá Jóni ítrekað fyrir en það var Gunnar Helgason sem lék ráðherrann.

Jón segist hafa haft gaman af Skaupinu. Sérstaklega hafi hann verið ánægður með þá áherslu sem eldgosið undir Eyjafjallajökli fékk.

„Ég var þarna mikið þegar ástandið var hvað verst og ráðuneytið kom þar inn með fyrstu aðgerðir til að koma til móts við vanda bænda á svæðinu og það var auðvitað verið að undirstrika það. Ég var ánægður með þessa áherslu í Skaupinu en undirtóninn var auðvitað alvara," segir Jón. Í Saupinu sást Gunnar í gervi Jóns í tíma og ótíma meðal annars dreifa ösku.

„Mér fannst þetta kómískt“

Umdeilt var þegar Jón ákvað að ráða Bjarna Harðarson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins og núverandi varabæjarfulltrúa VG í Árborg, í stöðu upplýsingafulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Fjallað var um þá ráðningu í Skaupinu og brá Einar Örn Einarsson, sem einna þekktastur er fyrir að hafa leikið Manna í sjónvarpsþáttunum um þá bræður Nonna og Manna, sér í gervi Bjarna.

Aðspurður hvort honum hafi líkað atriðið með Bjarna segir Jón: „Bara vel." Hann hafi sérstaklega haft gaman af því þegar myndin af Valgerði Sverrisdóttur, fyrrverandi ráðherra og formanni Framsóknarflokksins, kom á tölvuskjáinn í umræddu atriði. „Það eru náttúrulega margir sem muna þá gömlu góðu daga. Mér fannst þetta kómískt," segir Jón hæðinn.




Tengdar fréttir

Skaupið í beittari kantinum

„Mér fannst hann og aðrir leikarar standa sig ljómandi vel,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sem kom nokkrum sinnum fyrir í Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Líkt og á síðasta ári var það Steinn Ármann Magnússon sem túlkaði Ólaf. „Mér fannst Skaupið nokkuð gott. Það var í beittari kantinum en mér finnst ekkert af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×