Innlent

Þekktu niðurstöður mælingar

Sorpbrennslan í Eyjum stendur hátt á vindasömum stað og reykurinn sest ekki inn yfir byggðina eins og skapaði mesta vandann í Skutulsfirði. Í austanátt kvarta hins vegar Eyjamenn yfir mengun sem slær niður í byggðinni og áhyggjur af mengun hafa verið ræddar á fundum bæjarstjóra með íbúum. fréttablaðið/óskar
Sorpbrennslan í Eyjum stendur hátt á vindasömum stað og reykurinn sest ekki inn yfir byggðina eins og skapaði mesta vandann í Skutulsfirði. Í austanátt kvarta hins vegar Eyjamenn yfir mengun sem slær niður í byggðinni og áhyggjur af mengun hafa verið ræddar á fundum bæjarstjóra með íbúum. fréttablaðið/óskar
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að bæjaryfirvöld hafi vitað af díoxíni í útblæstri frá sorpbrennslunni á staðnum síðan mæling var gerð árið 2007. „Við höfum verið að vinna að úrlausn þeirra mála síðan þá. Það bendir flest til þess að við séum búin að ná díoxínmenguninni verulega niður og að íbúum hér stafi engin bráð hætta af mengun frá stöðinni. Aðalmálið er að hræða fólk ekki með þessari umræðu, eins og mér finnst sumir gera.“

„Það er alveg rétt að við megum bæta okkar verkferla í allri upplýsingagjöf til íbúa en þetta hefur allt verið uppi á borðum,“ segir Elliði, spurður um upplýsingaskyldu stjórnvalda til almennings og hans skyldur sem bæjarstjóra árið 2007 þegar niðurstöður lágu fyrir um mælinguna í Eyjum. „Ég hef sest niður með íbúum og rætt um mengun. Íbúarnir, sumir hverjir, hafa áhyggjur af því að vera með sorpbrennslu, vegna mengunar sem frá henni kemur. Það er okkar að bregðast við og takast á við þetta verkefni.“

Elliði segir að náin samvinna hafi verið við Umhverfisstofnun. „Það hefur verið ákveðið að mæla díoxín og tvö ár hafa verið gefin til að vinna að úrbótum. Ný stöð kostar allt að 500 milljónir, sem verður að hafa hugfast á sama tíma og verið er að skera niður grunnþjónustu.“

Elliði segir að gripið hafi verið til þess á undanförnum árum að bæta búnað sorpbrennslunnar. Flokkun á sorpi er mun meiri í Eyjum en var árið 2007, sem minnkar verulega brennslu á lífrænum úrgangi og þar með hættu á að díoxín myndist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×