Innlent

Gaf gjafabréf í ríkið með jakkafötum: Löglegt en siðlaust

Valur Grettisson skrifar
Gunnar Már Levísson í Herra Hafnarfirði. Hann var gagnrýndur af lögreglunni fyrir að gefa áfengisgjafabréf.
Gunnar Már Levísson í Herra Hafnarfirði. Hann var gagnrýndur af lögreglunni fyrir að gefa áfengisgjafabréf.

„Þeir komu í búðina og athuguðu hvort ég væri með áfengið á bak við búðarborðið," segir Gunnar Már Levísson, eigandi Herra Hafnarfjarðar, en lögreglan kom í búðina til hans rétt fyrir áramót vegna fréttatilkynningar, þar sem fram kom að hann gæfi áfengi með seldum jakkafötum.

„Þetta voru nú bara gjafabréf," segir Gunnar og áréttar að það hafi ekki verið þannig að hann hafi rétt viðskiptavinum áfengið yfir borðið.

Gunnar segir uppátækið hafa mælst afar vel fyrir hjá viðskiptavinum, „það var alveg brjálað að gera," segir Gunnar og bætir við að viðskiptavinum hafi þótt uppátækið spennandi.

Vísir greindi frá því á fimmtudaginn að kvartanir höfðu borist til lögreglunnar vegna málsins. Meðal annars í ljósi þess að hugsanlega væri um að ræða brot á reglum um sölu og dreifingu áfengis.

En eins og fyrr segir þá gaf Gunnar ekki áfengi yfir búðarborðið, heldur fengu viðskiptavinir gjafabréf í vínbúð ríkisins.

Aðspurður hvaða viðbrögð Gunnar hafi fengið frá lögreglunni svarar Gunnar: „Þeir sögðu að þetta væri löglegt en siðlaust."

Hann segir samskiptin á milli sín og lögreglunnar hafa verið hin bestu.

„Það var engum skellt í handjárn. Þeir vou mjög kátir. Ég sagði þeim að það hefði verið synd að þeir komu ekki fyrr um morguninn því þá var ég með kleinuhringi á boðstólnum," segir Gunnar glaður í bragði.

Gunnar segir næsta skref að gera klárt fyrir janúarútsölur. Hann hyggst selja allar vörur með helmingsafslætti en útsalan byrjar í dag hjá honum.


Tengdar fréttir

Lögreglan rannsakar Herra Hafnarfjörð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hvort herrafataverslunin Herra Hafnarfjörður hafi gerst brotleg við lög með því að bjóða viðskiptavinum ókeypis áfengi með hverjum seldum jakkafötum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×