Innlent

Húsvíkingar biðja um heilindi frá Landsvirkjun

Frá Húsavík.
Frá Húsavík. MYND/KK

Byggðaráð Norðurþings harmar að Landsvirkjun skyldi ekki upplýsa samstarfsaðila um orkunýtingu í Þingeyjarsýslum um áform um metanólverksmiðju við Kröflu og krefst þess að fyrirtækið upplýsi hvaða áhrif þetta geti haft á álver á Bakka.

Ráðamenn á Húsavík fréttu það í gegnum fjölmiðla að Landsvirkjun hefði undirritað viljayfirlýsingu við Carbon Recycling um að meta hagkvæmni þess að reisa metanólverksmiðju við Kröflu. Þar er mönnum greinilega brugðið enda blasir við að ráðstöfun umtalsverðrar raforku til metanólverksmiðju getur gert áform um álver á Bakka að engu.

Byggðaráð Norðurþings bókaði um málið á síðasta fundi sínum fyrir áramót og þar er minnt á að fyrir ári hafi iðnaðarráðuneytið undirritað viljayfirlýsingu við sveitarfélögin í Suður-Þingeyjarsýslu þar sem meðal annars var kveðið á um verkefnisstjórn. Í bókun byggðaráðs Norðurþings segir að eitt af grundvallar atriðum þessarar vinnu hafi verið samstarf og samvinna með ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun, - samstarf sem nauðsynlegt sé að sé byggt á heilindum og góðu upplýsingaflæði aðila á milli.

Byggðaráð Norðurþings kveðst fagna því að verið sé að skoða möguleika á nýtingu jarðvarma við Kröfluvirkjun en harmar jafnframt þau vinnubrögð Landsvirkjunar, að samstarfsaðilar um orkunýtingu í Þingeyjarsýslum og verkefnisstjórn hafi ekki verið upplýst um stöðu mála. Að auki gerir Byggðaráðið þá kröfu að fá upplýsingar um hvort framangreindar fyrirætlanir hafi áhrif á önnur verkefni sem unnið sé að í Þingeyjarsýslum. Það er von byggðaráðs Norðurþings, segir í bókuninni, að vinnubrögð af hálfu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar verði tekin til endurskoðunar, enda hafi verið stefnt að samstarfi marga áratugi fram í tímann.

Bókun byggðaráðs má sjá hér.

 














Fleiri fréttir

Sjá meira


×