Innlent

Hirða jólatré í Kópavogi og Hafnarfirði en ekki í Reykjavík

MYND/Sigurður

Mánudaginn 10. janúar og þriðjudaginn 11. janúar munu starfsmenn Kópavogsbæjar annast hirðingu jólatrjáa í bænum. Bæjarbúar sem vilja nýta sér þessa þjónustu eru vinsamlegast beðnir um að setja jólatrén út fyrir lóðamörk og ganga þannig frá þeim að þau geti ekki fokið.

Sama verður upp á teningnum þessa daga í Hafnarfirði.

Í Reykjavík er þessi þjónusta hinsvegar ekki í boði, ekki frekar en í fyrra. Borgarbúar geta farið sjálfir með jólatrén sín endurgjaldslaust á endurvinnslustöð eða keypt þjónustuna hjá sorphirðufyrirtækjum og íþróttafélögum. „Flestir fara eina ferð um jólin á endurvinnslustöðvar Sorpu með ýmsar umbúðir, pakkningar utan um flugelda og annað sem til fellur. Jólatréð er eitt af því sem þarf að fara í endurvinnslu," segir á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Gámaþjónustan sækir gegn greiðslu

Eins og á síðasta ári verður Gámaþjónustan hf með samstarf við Skógræktarfélag Reykjavíkur við söfnun jólatrjáa á höfuðborgarsvæðinu.

Verðið á þjónustunni er  800 krónur og er gróðursetning á einu tré í Jólaskóginum innifalin. Best er að panta þjónustuna á netinu á slóðonni www.gamar.is fyrir 10. janúar. Einnig má hringja í  söludeild Gámaþjónustunnar í síma 535 2510.

Fyrir hvert jólatré sem Gámaþjónustan safnar gróðursetur Skógræktarfélagið  tré í Jólaskóginum í Heiðmörkinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×