Innlent

Sameining ráðuneyta skilar 300 milljóna sparnaði

Guðbjartur Hannesson og Ögmundur Jónasson munu fá nýja starfstitla á nýju ári.Fréttablaðið/Stefán
Guðbjartur Hannesson og Ögmundur Jónasson munu fá nýja starfstitla á nýju ári.Fréttablaðið/Stefán

Um 300 milljónir króna munu sparast með sameiningu ráðuneyta, en ný ráðuneyti, velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti, tóku formlega til starfa um áramótin. Sparnaðurinn felst aðallega í minni kostnaði við yfirstjórn ráðuneyta, en ekki er gert ráð fyrir uppsögnum starfsfólks í bili.

Með sameiningunni verður dómsmála- og mannréttindaráðuneyti sameinað samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti í nýju innanríkisráðuneyti og hins vegar er ráðuneyti félags- og tryggingamála sameinað heilbrigðisráðuneyti í velferðarráðuneyti.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á kynningar­fundi í liðinni viku að þetta væru „umfangsmestu breytingar á skipulagi ráðuneyta frá því að lög um stjórnarráð voru sett árið 1969".

Eins og fyrir fram var vitað verður Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Guðbjartur Hannes­son verður velferðarráðherra, en þeir hafa stýrt forverum nýju ráðuneytanna frá því í september.

„Forsenda svona sameiningar er auðvitað bætt þjónusta. Annars hefur þetta engan tilgang," sagði Guðbjartur Hannesson. „Ef við erum ekki að ná betri árangri í hagkvæmni og betri þjónustu við þá sem hennar njóta er til lítils gengið. Það er útgangspunkturinn og ég er sannfærður um að það muni nást."

Ögmundur Jónasson sagði að stefnt væri að markvissari ráðstöfun fjármuna. „Mestu áherslubreytingarnar finnst mér þó vera að eiga sér stað hvað varðar aukna áherslu á mannréttindamál og réttarstöðu einstaklinga í samfélaginu."

Frekari sameining ráðuneyta er fyrirhuguð á árinu þar sem atvinnuvegaráðuneyti verður til úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.

thorgils@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×