Innlent

Forseti Íslands: Útrýmum biðröðum eftir mat

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson.

„Efnahagskreppan, hrunið sem við nefnum svo, hefur þrengt svo að þúsundum Íslendinga að í viku hverri bíður fjöldi í röðum eftir matargjöfum. Fátækt hefur að vísu fylgt okkur lengi en nú hefur fjárhagsvandi margra, biðraðirnar eftir mat, orðið að smánarbletti,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í nýársávarpi sínu þar sem hann beindi meðal annars athyglinni að fátækt hér á landi.

Hann sagði örlög þúsunda nístandi og að samfélag sem kenni sig við norræna velferð geti ekki liðið að vikulega standi þúsundir í biðröðum eftir mat. „Við skulum sameinast um að afmá þennan smánarblett strax á næstu mánuðum. Íslendingar lyfta grettistaki þegar við leggjumst öll á árar.“

Um þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave sagði Ólafur Ragnar að þjóðin hefði sýnt að hún gæti tekið forystuna. „Atkvæðagreiðslan 6. mars var afdráttarlaus vitnisburður um hve vel stjórnskipun lýðveldisins virkar þegar mest á reynir, að þjóðin er fullfær um að fara með valdið sem henni ber. Allt tókst það vel þótt ýmsir spáðu öðru.

Viska spekinganna

Þá sagði hann: „Þjóðfundurinn og kosning til stjórnlagaþings voru svo nýjar leiðir til að laða fram vilja þjóðar og vonandi verður það til farsældar. En þá er áríðandi að allir sem kjörnir eru, hvort heldur þeir sitja á Alþingi, á stjórnlagaþingi eða hér á Bessastöðum, hafi jafnan í huga að þeir eru þjónar þjóðarinnar. Það er fólkið í landinu, þjóðin sjálf, sem fer með æðsta valdið.“

Ólafur Ragnar sagði að vilji fólksins væri kjarni lýðræðisins. „Svo einfalt er það, hvað sem líður kenningum eða visku spekinganna.“

Ávarpið í heild sinni er hægt að lesa á vef forsetaembættisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×