Innlent

Stjórnarsáttmálanum ekki breytt

Forsætisráðherra segir að í ríkisstjórn og ráðherranefnd um ESB-aðild sé unnið í sátt að málum tengdum ESB-styrkjum vegna kostnaðar við aðildarumsókn ríkisins. Fréttablaðið/Anton
Forsætisráðherra segir að í ríkisstjórn og ráðherranefnd um ESB-aðild sé unnið í sátt að málum tengdum ESB-styrkjum vegna kostnaðar við aðildarumsókn ríkisins. Fréttablaðið/Anton
Það ferli sem er í gangi varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur áfram og engar kröfur um annað hafa komið fram af hálfu Vinstri grænna. Þetta kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á blaðamannafundi að loknum ríkisstjórnarfundi í gær. Á fundinum var kynnt sóknaráætlunin Ísland 20/20.

Jóhanna áréttaði að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, hefði kynnt henni að fullur stuðningur væri hjá Vinstri grænum við stjórnarsamstarfið.

Jóhanna segir að frá upphafi hafi verið ljóst að skoðanir væru skiptar varðandi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. „En það náðist samkomulag milli flokkanna fyrir tveimur árum síðan hvernig í þetta ferli skyldi farið og að því er bara verið að vinna,“ sagði hún.

Jóhanna sagði að samþykkt Alþingis um umsóknaferlið yrði fylgt áfram. „Það er grundvöllur fyrir samstarfi þessara aðila um að þetta ferli fái að halda áfram og að því ljúki og þjóðin fái að greiða atkvæði um aðild að Evrópusambandinu.“

Jóhanna kvaðst ekki trúa því að tillaga um að draga aðildarumsókn Íslands til baka yrði samþykkt á Alþingi. „Ég hef fulla sannfæringu fyrir því að þingmenn treysti þjóðinni til þess að sjá hvað út úr þessu samningaferli kemur og greiða um það atkvæði.“- óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×