Innlent

DataMarket leitar út fyrir landsteinana

DataMarket stefnir nú á að opna söluskrifstofu í New York.fréttablaðið/valli
DataMarket stefnir nú á að opna söluskrifstofu í New York.fréttablaðið/valli
Fjárfestingarsjóðurinn Frumtak hefur keypt hlut í tölfræði- og gagnafyrirtækinu DataMarket fyrir 1,2 milljónir dala, eða tæpar 140 milljónir króna.

Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri DataMarket, segir fjárfestinguna kærkomna og fyrirtækið muni nú geta leitað út fyrir landsteinana á erlendan markað.

DataMarket hjálpar fólki að finna og skilja töluleg gögn úr alls konar gagnabönkum, ekki síst með myndrænni framsetningu.

„Við höfum verið að þróa þessa vöru í nokkurn tíma og nú verður henni komið í verð. Féð frá Frumtaki verður mestmegnis notuð í markaðsstarf,“ segir Hjálmar. „Við erum nú að einbeita okkur að austurströnd Bandaríkjanna. Það er alveg ljóst að það er ekki um mjög auðugan garð að gresja á markaðnum hér á landi.“

Fyrirtækið undirbýr nú opnun söluskrifstofu í New York. Síðan í janúar síðastliðnum hefur verið lögð meiri áhersla á öflun og úrvinnslu erlendra gagna og segir Hjálmar að sú vinna muni halda áfram. Meðal annars er unnið úr gögnum frá Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðabankanum, og Eurostat.

„Þróunin verður áfram hér á landi en sölu- og markaðsstarfið þarf að vera þar sem kúnnarnir eru.“

Fjárfestingarsjóðurinn Frumtak er í eigu íslensku bankanna, lífeyrissjóðanna og Nýsköpunarsjóðs. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×