Innlent

Fimmtán ára piltur höfuðkúpubrotnaði og setlaug var stolið

Selfoss.
Selfoss.
Fimmtán ára piltur höfuðkúpubrotnaði þegar hann féll af mótorkrosshjóli og lenti á bifreið. Atvikið átti sér stað á gatnamótum Gagnheiðar og Lágheiðar á Selfossi í síðustu viku.

Pilturinn ók austur Lágheiði en bifreiðinni var ekið suður Gagnheiði. Þegar pilturinn varð var við bifreiðina hemlaði hann snögglega. Við það missti hann stjórn á hjólinu, féll af því og kastaðist á bifreiðina. Pilturinn var ekki með hjálm á höfði og hafði ekki réttindi til að aka hjólinu samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Aðfaranótt miðvikudagsins 11. maí síðastliðinn var svo kerru með setlaug stolið þar sem hún var við verkstæði Smíðanda að Eyravegi 55 á Selfossi. Í botni kerrunnar var sólpallaefni en á hliðum brúnn krossviður. Setlaugin var 2000 lítra frá Norma.  Þeir sem veitt geta upplýsingar um þennan þjófnað eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010.

Þá varð vélhjólaslys á Biskupstungnabraut skammt ofan við Þrastarlund síðastliðið miðvikudagskvöld. Ökumaður bifhjólsins var á leið suður Biskupstungnabraut er hann lenti í lausamöl, sem var á veginum eftir lagfæringar á holum í veginum, með þeim afleiðingum að bifhjólið lagðist á hliðina. Ökumaðurinn slapp ómeiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×