Innlent

Össur bauðst til að veita Ashtiani hæli hér á landi

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur boðist fyrir hönd íslenska ríkisins til að veita írönsku konunni Ashtiani hæli hér á landi. Þetta kom fram í upphafi máls utanríkisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann flutti skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál. Össur sagði að ráðuneytið hafi á undanförnum misserum gert gangsskör í því að beita sér frekar í málum einstaklinga á alþóðavettvangi og tiltók hann sérstaklega mál Ashtiani, sem dæmd hefur verið til dauða í Íran.

Að sögn Össurar ræddi hann mál hennar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfarið bauðst hann síðan í viðræðum við Íran til þess að veita henni hæli. Ekki fylgdi sögunni hvernig Íranir tóku í tillöguna.

Sakineh Mohammadi Ashtiani var í heimalandi sínu dæmd til þess að verða grýtt til dauða eftir að dómstóll sakfelldi hana fyrir hórdóm. Hún hefur verið í fangelsi frá árinu 2006 en dauðarefsingunni hefur verið frestað um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×