Innlent

Ferðamaður fékk hjartaáfall við rætur Sólheimajökuls

Ferðamaður fékk hjartaáfall við rætur Sólheimajökuls á föstudaginn samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Konan, sem er af erlendum uppruna, var á ferð ásamt hópi samlanda sinna og íslenskum fararstjóra. Hún var flutt með sjúkrabifreið til Reykjavíkur á sjúkrahús. Líðan hennar var stöðug.

Þá féll kona af hestbaki í Landssveit síðasta fimmtudag. Hún hlaut höfuðhögg og var flutt með sjúkrabifreið á sjúkrahús í Reykjavík.

Á laugardeginum var tilkynnt um flugslys á Hvolsvelli á Garðsaukabraut. Flugvél af Cessna gerð með fjórum um borð hlekktist á í flugtaki. Betur fór en á horfðist og slapp fólkið með minni háttar meiðsli en það var flutt á Heilsugæsluna á Hvolsvelli til aðhlynningar.

Þaðan útskrifaðist það skömmu síðar. Mikill viðbúnaður fór í gang við slysið og kom lögregla til aðstoðar okkur frá Selfossi. Slökkvilið frá Hvolsvelli kom einnig á staðinn. Rannsóknarnefnd flugslysa var kölluð til. Flugvélin var síðan flutt á vagni til Reykjavíkur þar sem rannsókn á henni mun fara fram.

Landsþing Landsbjargar fór fram á Hellu um helgina og á laugardagskvöldið fór fram árshátíð Landsbjargar í íþróttahúsinu á Hellu. Þar voru komnir saman um 600 manns og fór allt vel fram.

Mikið var um gleði á laugardaginn en söngvakeppni sjónvarpsstöðva Evrópu fór fram. Þess má geta að engin líkamsárás var kærð til okkar á Hvolsvelli í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×