Erlent

Vilja handtaka Gaddafí og draga fyrir rétt

Saksóknari við Alþjóðlega glæpadómstóllinn í Haag vill gefa út handtökuskipun á einræðisherra Líbíu, Múammar Gaddafí og nánustu samverkamenn hans. Saksóknarinn, Luis Moreno-Ocampo, vill koma böndum á Gaddafí og einnig son hans Seif al-Islam og Abdullah al-Sanusi yfirmann leyniþjónustunnar.

Dómarar við dómstólinn eiga eftir að taka afstöðu til kröfunnar og líbíska ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt að hún muni virða skipunina að vettugi. Saksóknarinn segir ljóst að þremenningarnir beri ábyrgð á stórfelldum og skipulögðum árásum á óbreytta borgara í landinu.

Aðstoðarutanríkisráðherra Líbíu segir hinsvegar að ekkert mark sé takandi á dómstólnum enda sé hann hannaður af Evrópusambandinu og sérstaklega hugsaður til þess að koma höggi á leiðtoga í Afríku.

Ef dómarar við dómsólinn fallast á kröfuna verður það aðeins í annað sinn í sögunni sem gefin er út handtökuskipun á sitjandi leiðtoga sjálfstæðs ríkis. Í fyrsta sinn var um að ræða Omar al-Bashir forseta Súdans sem ákærður er fyrir þjóðarmorð í Darfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×