Innlent

Ný könnun MMR: Mikil andstaða við veggjöld

Mikill meirihluti landsmanna er andvígur því að sett verði veggjöld til að fjármagna nýframkvæmdir í samgöngumálum.

Lítill munur á afstöðu fólks eftir búsetu. Andstaðan við veggjöld mest á meðal Sjálfstæðismanna. Þetta kemur fram í nýrri könnun Markaðs- og miðlarannsókna, MMR.

MMR kannaði hvort fólk væri almennt fylgjandi eða andvígt því að sett yrðu veggjöld til að fjármagna nýframkvæmdir í samgöngumálum. Mikill meirihluti þeirra sem tók afstöðu kváðust andvígir veggjöldum eða 81,9%. Lítill munur reyndist á afstöðu fólks eftir því hvort það býr á höfuðborgasvæðinu eða úti á landi.

Andstaðan við veggjöld reyndist mest á meðal Sjálfstæðismanna, en 88,9% þeirra sögðust frekar eða mjög andvígir hugmyndum um veggjöld til fjármögnunar á nýframkvæmdum í samgöngumálum.

Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir heimilistekjum eru flestir, eða rúm 23%, þeir am sem hafa tekjur yfir 800 þúsund fylgjandi veggjöldum. Athygli vekur að næst á eftir tekjuhæsta hópnum kemur sá tekjulægsti, en 21,4% þeirra sem hafa heimilistekjur undir 250 þúsund eru hlynntir veggjöldunum. Langflestir eru þó andvígir gjöldunum, sama hverjar heimilistekjurnar eru, og er andstaðan mest í millitekjuhópi þar sem heimilistekjur eru frá 250 til 399 þúsund krónur.

Spurt var: Almennt séð, hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu hugmyndum um að setja á veggjöld til að fjármagna nýframkvæmdir í samgöngumálum?

Svarmöguleikarnir voru: Mjög fylgjandi, Frekar fylgjandi, Frekar andvígur eða Mjög andvígur. Samtals tóku 94,5% afstöðu til spurningarinnar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×