Innlent

Björgunin markaði tímamót

Minningarguðþjónusta um sögulegt björgunarfrek við Íslandsstrendur var haldin í bænum Grimsby í Bretlandi um helgina. Björgunin markaði upphaf þess að gúmmíbátar urðu skylduútbúnaður á skipum.

Það var árið 1954 sem Glaður VE 270 frá Vestmannaeyjum fékk á sig brot og sökk. Átta manna áhöfn komst í gúmmíbjörgunarbát. Sólarhring síðar var áhöfninni bjargað af breska skipinu Hull City en þá hafði björgunarbátinn rekið um 90 sjómílur frá slysstað.

Ættingjar þeirra sem björguðust þennan dag hafa lengi spurt sig hvort einhver úr bresku áhöfninni væri enn á lífi. Sá maður fannst á dögunum, James Findlater og var hann heiðraður á minningarguðsþjónustunni í Grimsby um helgina þar sem fjöldi Vestmannaeyinga var samankominn og séra Kristján Björnsson, sóknarprestur úr Eyjum messaði.

Þeir fengu heiðursmerki frá sjómannadagsráði og skjöld sem fylgir því handa James. Og síðan var annar skjöldur sem var útbúinn frá ættingjum áhafnarinnar á Glað, þakkarskjöldur sem verður settur upp í sjómannakirkjunni í Grimsby.

En björgunarafrekið hafði líka óvæntar afleiðingar með í för. Gúmmíbjörgunarbátar voru ekki skylduútbúnaður en þarna bjargaði slíkur bátur átta lífum. Skipverjarnir á Hull tóku bátinn með sér til Bretlands og sögðu sögu sína. Eftir þetta urðu gúmmíbjörgunarbátar nauðsynlegur útbúnaður á skipum. Síðan þá hafa gúmmíbjörgunarbátar bjargað lífum um tólf hundruð sjómanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×