Erlent

Óvenju róstusamt á landamærum Ísraels á afmælisdaginn

Óli Tynes skrifar
Þúsundir manna streymdu að landamærum Ísraels.
Þúsundir manna streymdu að landamærum Ísraels.
Fréttaskýrandi BBC í Líbanon veltir fyrir sér hvort mótmæli á landamærum Ísraels, Sýrlands og Líbanons um helgina hafi að einvherju leyti verið að undirlagi stjórnvalda í Sýrlandi og Hizbolla í Líbanon. Stofnunar Ísraelsríkis árið 1948  var minnst hinn 14. þessa mánaðar. Undanfarin ár hafa bæði Sýrland, Líbanon, Jórdanía og Egyptaland komið í veg fyrir alvarleg mótmæli á landamærunum að Ísrael.

Að þessu sinni var slíkum mannfjölda hleypt að landamærunum í Sýrlandi og Líbanon að um stund misstu ísraelskir landamæraverðir stjórn á ástandinu. Flestir þeirra sem voru að mótmæla voru palestínumenn og þeir ruddust yfir landamærin þrátt fyrir að ísraelar skytu mörgum aðvörunarskotum. Ísraelarnir skutu þá á mannfjöldann.   Einnig kom til átaka í Ramalla á Vesturbakkanum og á Gaza ströndinni. Í þessum átökum létu 14 manns lífið og hátt á annaðhundrað særðust.

Jim Muir fréttamaður BBC í Beirut segir að eflaust hafi palestínumennirnir að einhverju leyti verið smitaðir af arabiska vorinu svokallaða og viljað uppgjör við þá sem  þeir líta á sem kúgara sína. Þeir hefðu hinsvegar ekki komist að landamærunum nema með vitund og vilja stjórnvalda í Sýrlandi.

Þar lætur Muir staðar numið, en stjórnvöld í Sýrlandi þiggja líklega með þökkum allt sem gæti dregið athyglina frá því að þau slátra nú eigin þegnum í hundraðatali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×