Erlent

Dularfullt hvarf styttu af Konfúsíusi veldur vangaveltum

Dularfullt hvarf tæplega 10 metra háar styttu af Konfúsíusi frá Torgi hins himneska friðar í Bejing hefur valdið miklum vangaveltum.

Stytta þessi var afhjúpuð með mikilli viðhöfn fyrr í vor. Henni var valinn virðingarverður staður fyrir framan Þjóðminjasafn Kína beint á móti grafhýsi Maó formanns. Íbúar Bejing vöknuðu upp við það einn morgun í síðustu viku að styttan var horfin.

Fjallað er um málið í tímaritinu The Economist. Þar segir að opinberir fjölmiðla í Kína útskýri hvarfið með því að segja að styttan hafi aldrei átt að standa þarna. Hún eigi að vera í afgirtum garði við hlið torgsins og hafi verið sett upp til bráðabirgða fyrir framan Þjóðminjasafnið meðan verið var að undirbúa plássið í garðinum. Enginn trúir þessu.

Konfúsíus sem var uppi á fimmtu öld fyrir Krist er þekktasti heimspekingur Kína og vinsældir hans meðal þjóðarinnar hafa vaxið hröðum skrefum undanfarin ár. Kínverskir ráðamenn eru hrifnir af sumu í kenningum hans eins og félagslegum stöðugleika og samhljóm innan fjölskyldunnar. Annað fer ekki eins vel í ráðamennina það er hlutir eins og ábyrgð stjórnvalda gangvart þegnum sínum og það að menn eigi að ávinna sér rétt til að stjórna öðrum með siðferðilegum lifnaðarháttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×