Viðskipti innlent

Hagnaður bankans jókst um 160 prósent

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, kynnti uppgjör bankans ásamt þremur öðrum stjórnendum.Fréttablaðið/pjetur
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, kynnti uppgjör bankans ásamt þremur öðrum stjórnendum.Fréttablaðið/pjetur
„Við erum vongóð um að við séum komin á réttan stað,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

Bankinn hagnaðist um 24,4 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 9,4 milljörðum. Munurinn skýrist að mestu af gengishagnaði hlutabréfa í eigu dótturfélagsins Horns og sölu á Vestia ásamt eignum til Framtakssjóðs Íslands. Að þessu undanskildu nam hagnaðurinn 10,7 milljörðum króna, sem er nokkurn veginn á pari við hina stóru bankana.

Hreinar rekstrartekjur bankans námu 31 milljarði króna á tímabilinu, samanborið við 18,4 milljarða á sama tíma í fyrra.

Heildareignir jukust um 45 milljarða króna og námu lausafjáreignir 234 milljörðum króna í lok júní. Steinþór segir fjárhagsstöðu bankans sterka og vilji hann lána meira. Það sé hins vegar erfitt þar sem eftirspurn eftir lánsfé sé ekki mikil.

Landsbankinn hefur klárað það svigrúm sem hann fékk við tilfærslu eigna gamla bankans yfir í þann nýja til að lækka skuldir einstaklinga. Hann verður nú að greiða fyrir lækkun skulda einstaklinga úr eigin sjóðum. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×