Viðskipti innlent

Mesta áhættan fyrir fjárfesta hér á landi

Ísland fær verstu einkunn allra vestrænna ríkja í nýju áhættumati tryggingafyrirtækisins Aon sem hannað er fyrir fjárfesta.

Þar segir að áhætta fylgi fjárfestingum hér á landi vegna hættu á pólitískum afskiptum, verkföllum, óeirðum og jafnvel greiðsluþroti íslenska ríkisins. Þá sé gengisflökt einnig áhætta sem mögulegir fjárfestar þurfi að hafa í huga.

Áhættusamara er að fjárfesta á Íslandi en í nokkru öðru ríki Vestur-Evrópu. Lönd sem lenda í sama áhættuflokki og Ísland eru til dæmis Egyptaland, Rússland, Kína, Tyrkland, Lettland og Albanía. Lönd sem talin eru skárri til fjárfestinga eru til dæmis Mexíkó, Marokkó, Túnis, Búlgaría og Litháen.

Þetta mat á Íslandi sem fjárfestingarkosti rímar ágætlega við mælingu Efnahags- og samvinnustofnunarinnar (OECD), sem telur hvergi innan OECD viðlíka hindranir á beinni erlendri fjárfestingu og hér á landi.

„Erlendir fjárfestar óttast öðru fremur geðþóttaákvarðanir stjórnvalda og ófyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi,“ segir Aðalsteinn Leifsson, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík í grein í Fréttablaðinu í dag.

„Bein erlend fjárfesting er lítil á Íslandi í samanburði við önnur lönd og nær eingöngu bundin við áliðnað. Ein af ástæðunum er sú skynjun að það sé áhættusamt að fjárfesta á Íslandi,“ segir Aðalsteinn.

Hann setur þetta í samhengi við áhuga kínverska kaupsýslumannsins Huangs Nubo á að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. „Ef Huang Nubo verður neitað um heimild til að fjárfesta á Íslandi er nauðsynlegt að rökstyðja þá ákvörðun með hlutlægum og málefnalegum rökum. Að öðrum kosti mun orðspor Íslands tengt beinni erlendri fjárfestingu bíða enn frekari hnekki,“ segir Aðalsteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×