Erlent

Óku til hallarinnar í opnum hestvagni

Hestar drógu vagninn með Vilhjálmi. Við hlið hans sat Katrín
Hestar drógu vagninn með Vilhjálmi. Við hlið hans sat Katrín Mynd: AFP
Um tveir milljarðar manna um allan heim fylgdust með þegar Vilhjálmur prins og Katrín prinsessa voru gefin saman í Westminster Abbey í dag.

Myndasafn frá þessu hátíðisdegi má sjá í meðfylgjandi myndasafni. Þar má meðal annars sjá sir Elton John koma til kirkjunnar.

Fyrir utan að vera orðin prinsessa sæmdi drottningin Katrínu titlinum Hertogaynjan af Cambridge. Og fyrir þá sem tóku þátt í að veðja um litinn á hatti Elísabetar drottningar má geta þess að hann var gulur, eins og raunar flestir höfðu veðjað á. Sömuleiðis var hún í gulri dragt.

Eins og nærri má geta var athöfnin afskaplega formleg og virðuleg en brúðhjónin skiptust þó á mörgum brosum. Að henni lokinni óku brúðhjónin í opnum hestvagni frá Westminster Abbey til Buckingham hallar. Á leiðinni voru þau hyllt af að minnstakosti einni milljón Breta og ferðamanna sem vörðuðu veginn.

Veisluhöld að hefjast

Og nú verður kátt í höllinni því þar verða veislur og móttökur langt fram á kvöld. Þegar veisluhöldum lýkur munu drottningin og Filipus hertogi yfirgefa Buckinghamhöll á eftirláta hana brúðhjónunum á brúðkaupsnóttina.

Brúðarkjóll Katrínar prinsessu og blómvöndur hennar var nánast eins ólíkur skrúða Díönu prinsessu og hugsast getur. Kjóllinn var fílabeinshvítur, skreyttur blúndum og virtist léttur. Slóðinn var stuttur. Brúðarvöndurinn var hvítur og grænn og mjög nettur. Hún var ekki með hálsfesti en hinsvegar demantseyrnalokka. Katrín bar litla kórónu sem drottningin lánaði henni, en kórónan er frá árinu 1936 og hefur verið kölluð „geislabaugurinn" frá Cartier. Vilhjálmur prins var í einkennisbúningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×