Erlent

Ísraelsstjórn hafnar samstarfi við Hamas

Fjölmargir Palestínumenn fögnuðu samkomulagi Fatah og Hamas um að stjórna sjálfsstjórnarsvæðum Palestínu sameiginlega næsta árið og boða svo til kosninga. Hrifningin var minni hjá stjórnvöldum í Ísrael. Fréttablaðið/AP
Fjölmargir Palestínumenn fögnuðu samkomulagi Fatah og Hamas um að stjórna sjálfsstjórnarsvæðum Palestínu sameiginlega næsta árið og boða svo til kosninga. Hrifningin var minni hjá stjórnvöldum í Ísrael. Fréttablaðið/AP
Stjórnvöld í Ísrael munu ekki ræða við palestínsk stjórnvöld á meðan Hamas-samtökin eiga aðild að stjórn Palestínu, sagði Avigdor Lieberman, utanríkisráðherra Ísraels, í gær.

Forsvarsmenn stríðandi fylkinga Palestínumanna náðu á miðvikudag sögulegu samkomulagi um að sameina á ný svæði í Palestínu og hætta innbyrðis átökum Hamas og Fatah, sem kostað hafa hundruð manna lífið á síðustu árum.

„Með þessu er verið að fara yfir strikið,“ sagði Lieberman. „Þetta samkomulag þýðir í raun að hryðjuverkamenn eru komnir til valda á Vesturbakkanum.“ Ísrael, Bandaríkin og Evrópusambandið telja Hamas hryðjuverkasamtök.

Þrátt fyrir að samkomulagið auki bjartsýni á að Palestínumenn geti sameinast í kröfum sínum um frjálst og sjálfstætt ríki er ekki talið líklegt að fréttir af samkomulagi Hamas og Fatah blási nýju lífi í viðræður við Ísrael um sjálfstætt ríki Palestínumanna.

„Fólkið kallaði eftir því að bundinn væri endi á klofninginn. Við segjum við fólkið: Það sem þið báðuð um er nú orðið að veruleika,“ segir Azzam al-Ahmed, sem fór fyrir samninganefnd Fatah í viðræðunum við Hamas.

Hamas og Fatah ætla nú að sameinast um eina ríkisstjórn sem starfa á tímabundið í eitt ár. Að þeim tíma liðnum verður boðað til forseta- og þingkosninga. Óvild milli Hamas og Fatah hefur verið mjög uppi á yfirborðinu frá árinu 2006. Í kjölfar kosningasigurs Hamas, sem eru herskárri samtök en Fatah, komst Hamas til valda á Gasa en Fata hhélt stjórn á Vesturbakkanum.

Stjórnvöld í Ísrael brugðust við fréttunum með því að hafna því alfarið að Hamas tæki þátt í stjórn Palestínu, enda hafi samtökin það á stefnuskrá sinni að eyða Ísraelsríki. Í yfirlýsingu bandarískra stjórnvalda var tekið í sama streng.

„Palestínsk stjórnvöld verða að velja á milli þess að semja frið við Ísrael eða semja frið við Hamas,“ sagði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í yfirlýsingu. „Það gengur ekki að semja frið við báða þar sem takmark Hamas er að eyða Ísraelsríki.“

Innanbúðarmenn hjá Hamas-samtökunum segja að öryggissveitir samtakanna muni áfram stýra Gasa-svæðinu. Al-Ahmed sagði hins vegar að öryggissveitir bæði Fatah og Hamas yrðu sameinaðar og endurskipulagðar með aðstoð vinveittra arabaríkja.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, mun sitja áfram samkvæmt samkomulaginu, en forsætisráðherrar beggja landsvæða munu segja af sér.

Ósamkomulag milli hópa Palestínumanna hefur haft afar slæm áhrif á það friðarferli sem þó hefur verið í gangi undanfarin ár, enda hafa Palestínumenn ekki getað talað einum rómi í viðræðunum.

brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×