Lífið

Tilfinningaríkur Dolli situr heima

Adolf Ingi Erlingsson hefur um árabil lýst leikjum íslenska landsliðsins á stórmótum. Hann verður hins vegar að sitja heima að þessu sinni.
Adolf Ingi Erlingsson hefur um árabil lýst leikjum íslenska landsliðsins á stórmótum. Hann verður hins vegar að sitja heima að þessu sinni.

„Jú, ég hef alveg setið heima en þau eru ekki mörg mótin,“ segir Adolf Ingi Erlingsson íþróttafréttamaður. Það hefur varla farið framhjá neinum að HM í handbolta hefst í vikunni. Að þessu sinni verður sýnt frá mótinu beint á Stöð 2 Sport sem þýðir að Adolf Ingi mun ekki lýsa neinum leik á mótinu, nokkuð sem hefð hefur verið fyrir undanfarin ellefu ár.

Adolf kveðst þó ekki vera neitt svakalega svekktur en hann hefur fylgt þjóðinni í gegnum sigra og sorgir strákanna okkar allt frá Evrópumótinu í Króatíu árið 2000. „Fólk er fljótt að gleyma, ég sat til að mynda síðast heima á EM í Sviss 2006,“ segir Adolf og bætir því við, af sinni alkunnu hógværð, að hann búist ekki við því að fólk eigi eftir að sakna hans. „En ef svo er þá yrði það bara skemmtilegt.“

Adolf viðurkennir hins vegar að hann verði oft tilfinningalega tengdur „strákunum“ á þessum miklu ferðalögum. Hann þekki orðið marga þeirra mjög vel og ekkert síður þjálfarana og þá sem standa fyrir utan völlinn eins og sjúkranuddara og lækna. Og Adolf er ekki neinum vafa hvert eftirminnilegasta mótið sé, Ólympíuleikarnir í Peking, þegar strákarnir komust í sjálfan úrslitaleikinn en töpuðu fyrir Frökkum. Margir muna eflaust eftir því myndbroti þegar Adolf þerraði tár af hvarmi sínum þegar ljóst var að sæti í úrslitum var náð. „Þetta var mikið afrek og sennilega er þetta eitt mesta afrekið í íslenskri íþróttasögu.“ Og þá þarf vart að rifja upp magnaðan varnarleik Alexander Petterson sem Adolf lýsti með sínum einstaka hætti.

Íþróttafréttamaðurinn kveðst hins vegar vera hóflega bjartsýnn fyrir mótið núna og telur strákana setja markið á sjö efstu enda gefi slíkt sæti í undankeppni Ólympíuleikana. „Ég sé fimmta eða sjötta sætið fyrir mér.“ - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.