Viðskipti innlent

Hanna Björk stýrir Sparifélaginu

Hanna Björk Ragnarsdóttir.
Hanna Björk Ragnarsdóttir.

Hanna Björk Ragnarsdóttir, viðskiptafræðingur, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Sparifélagsins. Sparifélagið hefur um nokkurt skeið unnið að undirbúningi umsóknar um viðskiptabankaleyfi í kjölfar hlutafjárútboðs sem fyrirhugað er á komandi mánuðum. Að fengnu leyfi fyrir rekstri viðskiptabanka mun starf framkvæmdastjóra Sparifélagsins breytast í starf bankastjóra. Stefnt er að því að bankinn hefji starfsemi á síðari hluta ársins.

Nýi bankinn mun starfa undir heitinu Sparibankinn og byggja á hugmyndafræðinni um stýringu útgjalda og uppbyggingu sparnaðar og eigna, að því er fram kemur í tilkynningu. „Ég fagna því að við höfum fengið jafnöflugan og reyndan liðsmann til starfa og Hönnu Björk. Við höfum unnið hörðum höndum að því á síðustu mánuðum að leggja grunn að stofnun Sparibankans og er þetta mikilvægt skref á þeirri leið," segir Ingólfur H. Ingólfsson, stjórnarformaður Sparifélagsins.

Hanna Björk er 47 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur jafnframt lokið prófi í verðbréfamiðlun og diplómaprófi í mannauðsstjórnun frá EHÍ.

Hanna Björk hefur m.a. starfað sem deildarstjóri tölvudeildar Sjúkrasamlags Reykjavíkur, yfirviðskiptafræðingur við áætlana- og upplýsingadeild og síðar verðbréfadeild Húsnæðisstofnunar ríkisins, forstöðumaður reikningshalds hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar og sem forstöðumaður áætlana og greiningar á fjármálasviði Byr, síðar áhættustýringarsviði og gegndi því starfi fram á síðasta haust.

Hún hefur þegar hafið störf hjá Sparifélaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×