Viðskipti innlent

Fengu milljarða út á hús sem aldrei risu

Lóð við Þorrasali í Kópavogi var metin á rúmar 230 milljónir króna í efnahagsreikningi byggingafélagsins Innova árið 2007. Enn er í dag er ekkert á lóðinni fyrir utan rafmagnskassa úti í götu. Fréttablaðið/vilhelm
Lóð við Þorrasali í Kópavogi var metin á rúmar 230 milljónir króna í efnahagsreikningi byggingafélagsins Innova árið 2007. Enn er í dag er ekkert á lóðinni fyrir utan rafmagnskassa úti í götu. Fréttablaðið/vilhelm

VBS fjárfestingarbanki lánaði fyrirtæki Engilberts Runólfs­sonar milljarða króna til ýmissa fasteignaverkefna með veði í fasteignum sem aldrei risu.

Lánveitingar VBS fjárfestingarbanka til fasteignaverkefna námu alls 20 milljörðum króna sem jafngildir um 76 prósentum af heildarútlánum bankans.

Meðal stórtækustu viðskiptavina bankans í þessum verkefnum var fyrirtækið Innova, eitt af umsvifamestu byggingarfélögum landsins árið 2007. Forstjóri Innova var Engilbert Runólfsson sem hefur meðal annars afplánað dóma fyrir skjalafals, fíkniefnabrot og fjársvik.

Fram hefur komið að Engilbert var einn eigenda að félaginu Ferjuholti ehf. sem fékk lán hjá VBS fjárfestingarbanka til kaupa á tæplega 200 hektara spildu í landi Laugardæla norðan Selfoss árið 2007.

Nú hefur komið á daginn að verkefnin sem fyrirtæki tengd Engilbert komu að voru mun fleiri. Í ársreikningi Innova nam heildarvirði verka í vinnslu tæpum 11,6 milljörðum króna. Engin mannvirki eru á lóðum sem félagið mat á 5,8 milljarða króna. Þá voru þrjár fjölbýlishúsalóðir metnar á rúmar 530 milljónir króna en fasteignamat þeirra nemur í dag um 100 milljónum króna.

VBS fjárfestingarbanki tók virkan þátt í fjárfestingum með félaginu en afskrifaði sjö milljarða króna vegna tapaðra útlána árið 2009. Bankinn fór í þrot í fyrra.

„Þeir [VBS] voru alltaf með Fjármálaeftirlitið á bakinu á þessum tíma og redduðu sér með svona gjörningum. En verð á þessum tíma var svona. Menn voru að borga fimmtán milljónir fyrir lóðir undir íbúðir í fjölbýli á þessum tíma. Þetta var orðið algjört brjálæði," segir Engilbert.- jab




Tengdar fréttir

Segir VBS hafa stundað talnaleiki

Innova varð á meðal fimm umsvifamestu fyrirtækja í byggingageiranum að undangengnum samruna Stafna á milli við tvö önnur verktakafyrirtæki. Starfsmenn voru rúmlega tvö hundruð og veltan í kringum sjö milljarðar króna. Forstjóri fyrirtækisins var Engilbert Runólfsson. Hann sat inni fyrir aðild að fíkniefnainnflutningi fyrir fimmtán árum en varð stórtækur á fasteignamarkaði eftir aldamótin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×