Enski boltinn

Tevez fékk lögreglufylgd frá flugvellinum og heim til sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez ræðir við Patrick Vieira eftir leikinn í gær.
Carlos Tevez ræðir við Patrick Vieira eftir leikinn í gær. Mynd/AP
Mirror segir frá því í dag á heimasíðu sinni að Argentínumaðurinn Carlos Tevez hafi fengið lögreglufylgd frá flugvellinum þegar Manchester City liðið lenti í Manchester í gærkvöldi.

Enskir fjölmiðlar fóru á flug í gær þegar það varð ljóst að Carlos Tevez, sem fær 37 milljónir íslenskra króna í vikulaun, hafi neitað að koma inn á í 2-0 tapi Manchester City á móti Bayern München í Meistaradeildinni.

Blaðamenn og knattspyrnuáhugamenn kepptust við að fordæma barnalega hegðun Tevez og það varð strax ljóst að upp var komið stórmál sem myndi herja á félagið næstu dagana.

Manchester-liðið flaug strax frá München til Manchester eftir leikinn og forráðamenn Manchester City höfðu svo miklar áhyggjur af hörðum viðbrögðum stuðningsmanna sinna við framkomu Tevez á Allianz Arena að þeir pöntuðu lögreglufylgd fyrir Argentínumanninn.

Lögreglan keyrði því á undan bíl Carlos Tevez frá Manchester Airport til heimili hans í Cheshire í gærkvöldi. Tevez áttaði sig þá kannski á því sem hann hafði gert því í morgun sendi hann frá sér fréttatilkynningu þar sem að hann segist ekki hafa neitað að fara inn á völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×