Innlent

Íbúarnir orðnir afar skelkaðir

Nýbygging við bergstaðastræti Kveikt var í einangrunarplasti utan á sökkli á mánudag. Slökkviliðinu gekk vel að ráða niðurlögum eldsins.fréttablaðið/anton
Nýbygging við bergstaðastræti Kveikt var í einangrunarplasti utan á sökkli á mánudag. Slökkviliðinu gekk vel að ráða niðurlögum eldsins.fréttablaðið/anton
Kveikt var í nýbyggingu við Bergstaðastræti 13 í sjötta sinn á stuttum tíma aðfaranótt þriðjudagsins. Ítrekað hafa óprúttnir aðilar komið að byggingunni í skjóli nætur eða snemma að morgni og borið eld að einangrunarplasti í byggingunni, sem hefur staðið ókláruð í rúmt ár.

Íbúar eru orðnir langþreyttir á íkveikjunum og segir Einar Sveinsson, íbúi við Bergstaðastræti 13, að menn séu orðnir uggandi.

„Okkur líst ekkert á þetta og vitum ekkert hvað er í gangi,“ segir hann. „Þetta er orðið alveg fáránlegt og enginn veit hvað þessu fólki gengur til.“

Einar segir bygginguna, sem stendur við suðurhlið Bernhöftsbakarís, hafa verið mjög umdeilda á sínum tíma. Engar framkvæmdir hafi verið við húsið síðan í júní en verktakinn, Mótamenn ehf., hafi sagt að framkvæmdum yrði haldið áfram von bráðar.

„Fólk er orðið afar skelkað um að það sé bara verið að reyna að brenna það inni,“ segir Einar. „Það kemur eitur úr þessu plasti þegar það brennur og íbúðirnar fyllast af sóti og drullu.“

Lögreglan fer með rannsókn málsins. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×