Innlent

Máttu ekki neita að selja Heilagan papa

Umdeildur Munkur Tjón brugghússins Ölvisholts vegna ákvörðunar ÁTVR um páskabjórinn Heilagan papa nam nokkrum milljónum króna.
Umdeildur Munkur Tjón brugghússins Ölvisholts vegna ákvörðunar ÁTVR um páskabjórinn Heilagan papa nam nokkrum milljónum króna.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) var óheimilt að neita að taka bjórtegund í sölu vegna trúarlegra skírskotana á umbúðum, samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis.

Brugghúsið Ölvisholt ætlaði að selja páskabjórinn Heilagan papa síðastliðið vor, en ÁTVR neitaði að taka bjórinn í sölu þar sem forsvarsmenn verslunarinnar töldu trúarvísanir á umbúðum bjórsins brjóta í bága við almennt velsæmi. Á umbúðunum er mynd af krjúpandi munki með kross í hendi.

Umboðsmaður Alþingis telur að ÁTVR hafi ekki haft heimild til að brjóta gegn tjáningar- og atvinnufrelsi bjórframleiðandans með því að neita að selja bjórinn.

Jón E. Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Ölvisholts, segir tjónið af því að skipta um merkimiða á bjórflöskunum hafa numið nokkrum milljónum króna.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir álit umboðsmanns snúast um lögin eins og þau hafi verið þegar málið hafi komið upp. Síðan þá hafi lögin breyst, og ÁTVR hafi skýrari heimildir í nýju lögunum. Hún vildi þó ekki segja til um hvort bjór í sömu eða sambærilegum umbúðum yrði hafnað á nýjan leik, en sagði hvert tilvik skoðað.

„Það er í raun ótrúlegt hvernig ÁTVR tekur sér einhliða vald til að setja reglur án þess að hafa til þess nokkrar heimildir,“ segir Árni Helgason, lögmaður Ölvisholts. Hann segir nýju lögin í raun festa þetta fyrirkomulag í sessi.

Hann segir að það veki spurningar hvaða sérfræðinga ÁTVR ætli að hafa við störf til að meta hvaða umbúðir geti sært velsæmi ákveðinna þjóðfélagshópa.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×