Innlent

Rannsóknarnefnd stofnuð í Reykjavík

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillöguna í dag. Mynd/ Vilhelm.
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti tillöguna í dag. Mynd/ Vilhelm.
Borgarstjórn Reykjavíkur hefur samþykkt að skipa nefnd þriggja óháðra sérfræðinga til að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með sama hætti og gert var af rannsóknarnefnd Alþingis síðastliðið vor.

Nefndinni ber meðal annars að skoða málsmeðferð, gegnsæi, verkaskiptingu stjórnmála og stjórnsýslu, hæfi og skipan í nefndir og stjórnir, skráningu hagsmunatengsla og siðareglur fyrir stjórnsýslu og stjórnkerfi.

Samkvæmt tillögunni, sem borgarstjórn samþykkti í dag, á sérstaklega að fjalla um þau svið stjórnsýslu Reykjavíkurborgar sem varða fjárhagslega hagsmuni þar sem skapast getur hætta á hagsmunaárekstrum, svo sem vegna lóðaúthlutana, lóðaskila, styrkveitinga, þjónustu- og verksamninga, innkaupa og eignasölu.

Samkvæmt tillögunni fær nefndin aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum Reykjavíkurborgar, þar með talið trúnaðargögnum og er heimilt að kalla fyrir sig aðila innan sem og utan stjórnkerfis borgarinnar. Nefndarmenn geta óskað eftir frekari athugunum á sviðum, stofnunum, fyrirtækjum eða byggðarsamlögum sem Reykjavíkurborg á aðild að eða hlut í ef tilefni er til. Lokaskýrsla nefndarinnar á að liggja fyrir 15. september 2011.

Þorleifur segir tillöguna útþynnta



Þorleifur Gunnlaugsson, borgarfulltrúi VG, segir að tillagan sem nú hafi verið samþykkt sé útþynning fyrri samþykktar sem gerð var í maí síðastliðinn, þar sem þá hafi afdráttarlaust kveðið á um að aðalverkefni nefndarinnar yrði að kanna aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum og hvort gætt hafi verið eðlilegrar hlutlægni og heiðarleika í þeim afskiptum.

Í þeirri tillögu hafi verið lagt til að kannað yrði hvort verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu og hvort fjársterkir aðilar hafa beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar ákvarðanir og stjórnsýslu borgarinnar og þannig hagnast á tengslum við hana. Jafnframt hafi átt að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×