Innlent

„Viljum fá sem flesta á listann okkar“

Björk Guðmundsdóttir tók lagið í gær.
Björk Guðmundsdóttir tók lagið í gær. Mynd/Stöð2
Rúmlega fjörtíu og þrjú þúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum Íslands og nýtingu þeirra en karaókímaraþoni til stuðnings málefninu lauk á miðnætti.

Undirskriftum fjölgaði verulega þegar karaókímaraþonið hófst á fimmtudag í norræna húsinu. Jón Þórisson, einn umsjónarmanna maraþonsins, kveðst búast við því að þjóðin fái að greiða atkvæði um framtíð orkuauðlinda.

„Jóhanna Sigurðardóttir hefur sagt að ef 15 prósent þjóðarinnar færi fram á þjóðaratkvæði þyrfti að taka mark á því og nú erum við búin að ná því marki. Ég get ekki séð hvernig þau geta gengið framhjá okkur núna."

Jón segir jafnframt að undirskriftalistinn verði borinn undir óháða könnunarstofnun til að tryggja að allir sem skráð hafa naf sitt á listann hafi gert það í raun. Þá hafa umsjónarmenn undirskrifalistans ekki tekið ákvörðun um hvernig hann verði lagður fram en Jón býst við því að fleiri undirskriftir eigi eftir að bætast við.

„Það er óákveðið hvenær við hættum, það stendur til að hafa karaókí næstu helgi úti á landi. Við viljum fá sem flesta á listann okkar, eða eins og Ólafur Stefánsson sagði, þá ætti öll þjóðin að skrifa undir."

Karaókímaraþoninu lauk á miðnætti í gær en Jón kveður mikla stemmningu hafa verið í Norræna húsinu.

„Það var mikið stuð, alls konar fólk sem mætti þarna, skemmtilegur þverskurður af þjóðinni," segir Jón að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×