Formúla 1

Vettel: Verðum að halda einbeitingu

Sebastian Vettel er mættur til Ítalíu og keppir á Monza bratuinni um helgina.
Sebastian Vettel er mættur til Ítalíu og keppir á Monza bratuinni um helgina. AP mynd: Antonio Calanni
Sebastian Vettel hjá Red Bull er með 92 stiga forskot á næsta ökumann í stigamóti ökumanna í Formúlu 1 og er mættur til Monza á Ítalíu þar sem þrettánda umferð meistaramótsins fer fram um helgina. Liðsfélagi Vettel, Mark Webber er í öðru sæti í stigamótinu, en Fernando Alonso á Ferrari þriðji, en hann er 102 stigum á eftir Vettel.

Þá er Red Bull með 131 stigs forskot á McLaren í stigamóti bílasmiða. Sjö mót eru enn eftir og þannig 175 stig í stigapottinum í hvoru stigamótinu fyrir sigur, en fyrir sigur fást 25 stig.

„Ég veit að við erum í góðri stöðu, en meistarmótið er enn opið og við verðum að halda einbeitingu og hafa athyglina á öllum smáatriðum. Vera vissir um að við náum alltaf því besta út úr okkur og bílnum í hverju móti", sagði Vettel í frétt á autosport.com í dag.

„Það sama gildir hér. Þetta er braut sem hentar okkur kannski ekki eins mikið og aðrar, en vitum það þó ekki með vissu. Morgundagurinn verður mikilvægur og kannski verður sjéns á sigri. Við verðum að stefna á það", sagði Vettel, en fyrstu æfingar Formúlu 1 liða eru á föstudag að venju. Hann vildi líka meina að ef sigurmöguleikarnir væru ekki til staðar í kappakstrinum, þá væri ekki viturlegt að stefna á toppsætið.

„Það þarf að skoða stöðuna hverju sinni. Hvað stöðuna í stigamótinu varðar, þá erum við í sterkri stöðu og við höfum unnið af kappi og gert fá mistök, og við eigum skilið að vera í þessari stöðu. Það þýðir ekki að allt verði í góðu lagi í næstu mótum."

Hann ræddi um að hlutirnir gætu breyst hratt, eins og var raunin í fyrra, en Vettel vann meistaratitilinn raunverulega í síðasta mótinu, en Alonso hafði verið í forystu í stigamótinu fyrir síðasta mótið. En afgerandi forskot Vettel hjálpar honum óneitnalega á lokasprettinum á þessu keppnistímabili.

„Ég kýs fremur að vera í stöðunni sem ég er í núna. Þegar maður er að elta þá verður maður að ná árangri, annars er hætta á að þeir sem eru á undan auki forskotið. Staðan er önnur núna. En mikilvægasta keppnin til að vera í stigaforystu í er síðasta keppnin. Við lukum tímabilinu í fyrra þannig og það er það sem við sækjumst eftir", sagði Vettel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×