Skoðun

Merkingarlaus stjórnarskrá

Sigurður Lîndal skrifar
Ég veit það að íhaldið er órólegt af því þeir vilja ekki stjórnlagaþing. Þeir eru skíthræddir um það að þá komi inn ákvæði sem þjóðin hefur lengi kallað eftir og barist fyrir. Það er að auðlindirnar verði þjóðareign."

Þannig birtust meðal annars viðbrögð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra eftir ályktun Hæstaréttar um að kosningar til fyrirhugaðs stjórnlagaþings væru ógildar.

Þessi orð "auðlindirnar verði þjóðareign" og önnur áþekk eru ein helztu tízkuorð stjórnmálaumræðunnar nú um stundir og er þar einkum átt við jarðhita, vatnsafl og nytjastofna á Íslandsmiðum. En um hvað er verið að tala; hvað merkir þetta orð: "þjóðareign"? - Nú eru lendur og lóðir margar í einkaeign, einnig eru víðlend svæði eign ríkis og sveitarfélaga. Auðlindir sem þar er að finna eru eign eigandans, hvort heldur einkaaðila, ríkis eða sveitarfélags. Með veiðireynslu öfluðu menn sér upphaflega veiðiréttinda með námi eða töku á eigendalausum verðmætum - fiski - sem síðar voru nánar afmörkuð með lögum þegar nauðsynlegar reyndist að takmarka sókn í nytjastofnana. Þessi réttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar a.m.k. sem atvinnuréttindi, jafnvel bein eignarréttindi að sumra mati. Þessu hefur aldrei verið andmælt með lagalegum rökum. Orðið þjóðareign í þessu samhengi er þannig merkingarlaust í lögfræðilegum skilningi. Ef nota á það í víðtækari merkingu - eins og Íslendingar "eigi" landið, tunguna og fornbókmenntirnar - er það ónothæft í lagatextum og allri rökræðu.

Merkingarlaus orð eða margræð einkenna mjög alla stjórnmálaumræðu á Íslandi og hafa lengi gert. Í skjóli merkingarleysisins þrífst óstjórn og spilling bæði í stjórnmálum og atvinnulífi - ekki sízt í viðskiptum - og til hennar má rekja margvíslegan ófarnað. Stundum hefur verið látið að því liggja að hrunið 2008 megi rekja til stjórnarskrár lýðveldisins og því verði að setja nýja og með því megi byggja upp nýtt Ísland. Allt eru þetta draumórar sem dylja vandann.

Orsakir hrunsins eru margvíslegar, en enginn vafi er á að sú merkingarlausa orðræða sem einkennir stjórnmálaumræðuna á þar drjúgan þátt og henni að baki þrífist stjórnarhættir sem bjóða heim óvissu og aðhaldsleysi bæði í landstjórn og lagaframkvæmd.

Þegar hugað er að orðum forsætisráðherra um þjóðareign á auðlindunum sem virðist helzta baráttumál hennar, verður ekki annað ályktað en fella eigi hina merkingarlausu orðræðu stjórnmálanna inn í ákvæði stjórnarskrárinnar og síðan fylgi ámóta yfirlýsingar eftir. Með því er verið að veita þessari orðræðu sérstaka vernd, þannig að stjórnmálamenn, hvernig sem þeir eru þenkjandi, geti haldið henni áfram í skjóli stjórnarskrárinnar með þeim afleiðingum sem þegar hefur verið lýst.

Á þetta að vera til leiðsagnar við endurreisn Íslands?




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×